Velferðarnefnd leggur til að frumvarpi heilbrigðisráðherra um neyslurými verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar en beinir því jafnframt til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna, þannig verði markmiðum neyslurýmanna best náð.
Í nefndaráliti nefndarinnar sem birt var á vef þingsins í dag kemur fram að nefndin taki heilshugar undir markmið frumvarpsins og telji brýnt að tryggja lagalegan grundvöll starfsemi neyslurýma. Hins vegar sé ljóst að frumvarpið tryggi ekki þann grundvöll með fullnægjandi hætti og endurskoða þurfi ýmis atriði þess með víðtækara og virkara samráði.
Nefndin beinir því til ráðuneyta bæði heilbrigðis- og dómsmála að vinna áfram að málinu og leggja það fram að nýju eins fljótt og auðið er. Löggjöf um neyslurými geti haft mikil áhrif á heilsu fólks og réttarstöðu þess og lagasetningin reyni á flókið samspil milli réttinda neytenda, hlutverks lögreglu og ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks.
Lýstu yfir áhyggjum varðandi refsileysi vörslu
Fréttablaðið fjallaði fyrr í vor um umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og minnisblað um málið frá dómsmálaráðuneytinu þar sem áhyggjum er lýst af því hve óskýrt frumvarpið sé varðandi refsileysi vörslu og neyslu efna í og við neyslurými.
Í nefndaráliti velferðarnefndar kemur þó fram að við meðferð málsins hjá nefndinni hafi af ríkur vilji komið fram af hálfu hlutaðeigandi til þess að leysa úr þessum álitaefnum.
Varsla neysluskammta gerð refsilaus
Þá segir að það sjónarmið hafi verið rætt í nefndinni að markmiði neyslurýma yrði best náð ef varsla neysluskammta fíkniefna yrði gerð refsilaus. Það skjóti skökku við að afnema refsingu við háttsemi sem almennt er ólögmæt innan tiltekins svæðis á grundvelli sjónarmiða um skaðaminnkun. Vísað er til þess að neyslurými fyrst og fremst hugsuð sem úrræði fyrir þá sem eru langt leiddir í fíkn og eygja litla von um að hætta sinni neyslu.
Með því að koma á fót neyslurýmum sé stigið skref til viðurkenningar á því að þessir einstaklingar séu fyrst og fremst með sjúkdóm. Með vísan til þess telur nefndin ástæðu til að kanna hvort tilefni sé til að löggjöfin gangi enn lengra í því að koma til móts við þessa einstaklinga svo að þeim verði ekki gerð refsing vegna þess sjúkdóms og beinir því til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna.