Vel­ferðar­nefnd leggur til að frum­varpi heil­brigðis­ráð­herra um neyslu­rými verði vísað aftur til ríkis­stjórnarinnar en beinir því jafn­framt til heil­brigðis­ráð­herra að vinna mark­visst að því að af­nema refsingar fyrir vörslu á neyslu­skömmtum fíkni­efna, þannig verði mark­miðum neyslu­rýmanna best náð.

Í nefndar­á­liti nefndarinnar sem birt var á vef þingsins í dag kemur fram að nefndin taki heils­hugar undir mark­mið frum­varpsins og telji brýnt að tryggja laga­legan grund­völl starf­semi neyslu­rýma. Hins vegar sé ljóst að frum­varpið tryggi ekki þann grund­völl með full­nægjandi hætti og endur­skoða þurfi ýmis at­riði þess með víð­tækara og virkara sam­ráði.

Nefndin beinir því til ráðu­neyta bæði heil­brigðis- og dóms­mála að vinna á­fram að málinu og leggja það fram að nýju eins fljótt og auðið er. Lög­gjöf um neyslu­rými geti haft mikil á­hrif á heilsu fólks og réttar­stöðu þess og laga­setningin reyni á flókið sam­spil milli réttinda neyt­enda, hlut­verks lög­reglu og á­byrgð heil­brigðis­starfs­fólks.

Lýstu yfir áhyggjum varðandi refsileysi vörslu

Frétta­blaðið fjallaði fyrr í vor um um­sögn lög­reglu­stjórans á höfuð­borgar­svæðinu og minnis­blað um málið frá dóms­mála­ráðu­neytinu þar sem á­hyggjum er lýst af því hve ó­skýrt frum­varpið sé varðandi refsi­leysi vörslu og neyslu efna í og við neyslu­rými.

Í nefndar­á­liti vel­ferðar­nefndar kemur þó fram að við með­ferð málsins hjá nefndinni hafi af ríkur vilji komið fram af hálfu hlutað­eig­andi til þess að leysa úr þessum á­lita­efnum.

Varsla neyslu­skammta gerð refsi­laus

Þá segir að það sjónar­mið hafi verið rætt í nefndinni að mark­miði neyslu­rýma yrði best náð ef varsla neyslu­skammta fíkni­efna yrði gerð refsi­laus. Það skjóti skökku við að af­nema refsingu við hátt­semi sem al­mennt er ó­lög­mæt innan til­tekins svæðis á grund­velli sjónar­miða um skaða­minnkun. Vísað er til þess að neyslu­rými fyrst og fremst hugsuð sem úr­ræði fyrir þá sem eru langt leiddir í fíkn og eygja litla von um að hætta sinni neyslu.

Með því að koma á fót neyslu­rýmum sé stigið skref til viður­kenningar á því að þessir ein­staklingar séu fyrst og fremst með sjúk­dóm. Með vísan til þess telur nefndin á­stæðu til að kanna hvort til­efni sé til að lög­gjöfin gangi enn lengra í því að koma til móts við þessa ein­stak­linga svo að þeim verði ekki gerð refsing vegna þess sjúk­dóms og beinir því til heil­brigðis­ráð­herra að vinna mark­visst að því að af­nema refsingar fyrir vörslu á neyslu­skömmtum fíkni­efna.