Á mið­viku­daginn verður í Há­skólanum í Reykja­vík haldinn „Láttu þér líða vel“ dagurinn. Þar verður and­leg heilsa nem­enda, og annarra, sett í fókus

„Okkur langaði að búa til vett­vang, fyrir bæði nem­endur og al­menning, sem eru að takast á við ýmsar á­skoranir í lífinu. Það er þá þessar and­legu á­skoranir. Að þau gætu komið hingað og kynnt sér þau bjargáð sem eru í boði úti í sam­fé­laginu,“ segir Stella Ólafs­dóttir, náms- og starfs­ráð­gjafi skólans, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að þau hafi undan­farið fundið fyrir auknum þyngslum hjá nem­endum og hafi viljað bregðast við því.

„Það er streita og það er kvíði og okkur fannst til­efni til að búa til vett­vang fyrir fólk með þessum ýmsu bjarg­ráðum á sama stað,“ segir Stella og bætir við: „Þetta er hugsað til að að­stoða fólk að taka fyrsta skrefið. Oft er flókið að finna út hvar erindi manns á heima. Við í náms- og starfs­ráð­gjöfinni fáum alls­konar fyrir­spurnir og fólk sem er að glíma við marg­þætt vanda­mál.“

Streita og kvíði hafi áhrif á námið

Spurð hvort kvíðinn og streitan hafi á­hrif á námið segir hún það ó­hjá­kvæmi­legt.

„Þegar fólk er að glíma við erfið­leika, sama svo sem hverjir þeir eru, hefur það á­hrif. Sér­stak­lega þegar fólk er í krefjandi vinnu eða námi,“ segir Stella.

Hún segir að hún vonist til þess að fólk geti á við­burðinum fundið sér leiðir til að finna lausn á sínum vanda­málum.

„Ef það stendur á tíma­mótum varðandi sitt and­lega á­stand eða til­finninga­líf þá vonum við við­burðurinn geti að­stoðað þau að taka fyrsta skrefið í átt að bættri líðan,“ segir Stella.

Fé­lögin sem kynna starf­semi sína á við­burðinum eru:

  • ADHD sam­tökin
  • Átröskunar­teymi Land­spítalans
  • Bata­skóli ís­lands
  • Bergið
  • Bjarkar­hlíð
  • Dreka­slóð
  • Hugar­afl
  • Hug­rún
  • Pieta
  • Rauði krossinn
  • Rótin
  • Sam­tökin 78
  • Sorgar­mið­stöð
  • Vinir í bata
  • Kraftur
  • Ég á bara eitt líf
  • Litla kvíða­með­ferða­stöðin

Hægt er að kynna sér við­burðinn nánar hér á Face­book og ávef­síðu Há­skólans í Reykja­vík.