Á miðvikudaginn verður í Háskólanum í Reykjavík haldinn „Láttu þér líða vel“ dagurinn. Þar verður andleg heilsa nemenda, og annarra, sett í fókus
„Okkur langaði að búa til vettvang, fyrir bæði nemendur og almenning, sem eru að takast á við ýmsar áskoranir í lífinu. Það er þá þessar andlegu áskoranir. Að þau gætu komið hingað og kynnt sér þau bjargáð sem eru í boði úti í samfélaginu,“ segir Stella Ólafsdóttir, náms- og starfsráðgjafi skólans, í samtali við Fréttablaðið.
Hún segir að þau hafi undanfarið fundið fyrir auknum þyngslum hjá nemendum og hafi viljað bregðast við því.
„Það er streita og það er kvíði og okkur fannst tilefni til að búa til vettvang fyrir fólk með þessum ýmsu bjargráðum á sama stað,“ segir Stella og bætir við: „Þetta er hugsað til að aðstoða fólk að taka fyrsta skrefið. Oft er flókið að finna út hvar erindi manns á heima. Við í náms- og starfsráðgjöfinni fáum allskonar fyrirspurnir og fólk sem er að glíma við margþætt vandamál.“
Streita og kvíði hafi áhrif á námið
Spurð hvort kvíðinn og streitan hafi áhrif á námið segir hún það óhjákvæmilegt.
„Þegar fólk er að glíma við erfiðleika, sama svo sem hverjir þeir eru, hefur það áhrif. Sérstaklega þegar fólk er í krefjandi vinnu eða námi,“ segir Stella.
Hún segir að hún vonist til þess að fólk geti á viðburðinum fundið sér leiðir til að finna lausn á sínum vandamálum.
„Ef það stendur á tímamótum varðandi sitt andlega ástand eða tilfinningalíf þá vonum við viðburðurinn geti aðstoðað þau að taka fyrsta skrefið í átt að bættri líðan,“ segir Stella.
Félögin sem kynna starfsemi sína á viðburðinum eru:
- ADHD samtökin
- Átröskunarteymi Landspítalans
- Bataskóli íslands
- Bergið
- Bjarkarhlíð
- Drekaslóð
- Hugarafl
- Hugrún
- Pieta
- Rauði krossinn
- Rótin
- Samtökin 78
- Sorgarmiðstöð
- Vinir í bata
- Kraftur
- Ég á bara eitt líf
- Litla kvíðameðferðastöðin
Hægt er að kynna sér viðburðinn nánar hér á Facebook og ávefsíðu Háskólans í Reykjavík.