Lækna­fé­lag Ís­lands kallar eftir því að stjórn­völd og stjórn­endur heil­brigðis­stofnana taki til­lit til sjónar­mið lækna og annarra starfs­manna heil­brigðis­kerfisins og að við­ræður hefjist þegar í stað við stéttar­fé­lög þeirra sem mest á mæðir. Þetta kemur fram í til­kynningu frá fé­laginu en þau kalla eftir skýru verk­lagi á meðan hættu­stig er lýst yfir á heil­brigðis­stofnunum.

Til­efni til­kynningarinnar eru um­mæli Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis um álag á spítalann en að sögn Þór­ólfs er stóra spurningin þegar kemur að frekari að­gerðum bæði innan­lands og á landa­mærunum til að hefta út­breiðslu Co­vid hvort að spítalinn þoli þær inn­lagnir sem fjölda smita fylgir.

„Starfs­fólk Land­spítala er búið að vera undir lang­varandi á­lagi með há­marks­nýtingu sjúkra­rúma á bráða­mót­töku, legu­deildum og gjör­gæslu allt frá upp­hafi far­aldursins í lok febrúar 2020. Þá hefur mikið álag verið á læknum og öðru starfs­liði heilsu­gæslunnar sem og Lækna­vaktarinnar,“ segir í til­kynningu LÍ.

Vísað er til þess að lög­bundin og fyrir fram skipu­lögð sumar­leyfi hafi verið stytt og að margir hafi þurft að vinna um­fram þá vinnu­skyldu sem eðli­legt getur talist. Í ljósi þessa skuli ræða við stéttar­fé­lög lækna, hjúkrunar­fræðinga, sjúkra­liða og rann­sóknar­fólks með hvaða hætti sé eðli­legt að skipu­leggja verk­efni næstu vikna.

„Ekki má víkja frá kröfum um eðli­lega vinnu­vernd og vel­ferð starfs­manna ef gæta á fyllsta öryggis sjúk­linga og veita bestu mögu­lega heil­brigðis­þjónustu.“