Átta þingmenn þriggja flokka, Pírata, Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins, vilja að stjórnvöld bregðist við þeim vanda sem stafar af rakaskemmdum hér á landi með markvissum aðgerðum.

„Staðreyndin er að mygla getur haft mjög afdrifarík og oft óafturkræf áhrif á líf fólks. Fasteignir sem verða fyrir tjóni vegna leka og rakaskemmda geta orðið mjög kostnaðarsamar fyrir eigendur og þegar mygla vex í fasteign getur verið afar erfitt og dýrt að losna við hana,“ segirí greinargerð með tillögunni.

Halldóra Mogensen er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um að Alþingi feli félags- og barnamálaráðherra, í samráði við heilbrigðisráðherra, að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum til að uppræta og koma í veg fyrir tjón vegna rakaskemmda í fasteignum.

Leggja þau til sex markvissar aðgerðir:
1. Auka réttindavernd þeirra sem verða fyrir tjóni vegna rakaskemmda.
2. Efla sjálfstætt eftirlit með prófunum á byggingarefni áður en það er tekið í notkun hér á landi.
3. Efla þekkingu fagaðila á rakaskemmdum og forvörnum tengdum þeim.
4. Gera aðgengilegar á miðlægan hátt upplýsingar um framkvæmdir á húsnæði.
5. Taka upp jákvæða hvata fyrir tryggingafélög til að tryggja húsnæði gegn rakaskemmdum.
6. Taka upp jákvæða hvata fyrir fasteignaeigendur til að koma í veg fyrir og uppræta rakaskemmdir á eldra húsnæði.
    Lagafrumvarp og viðeigandi reglugerðarbreytingar liggi fyrir eigi síðar en 30. apríl 2021.

Stjórnvöld hafa aldrei farið í markvissar aðgerðir

Í greinargerðinni kemur fram að stjórnvöld hafi ekki farið í markvissar aðgerðir til að draga úr þeim skaða sem mygla kann að valda og kunni það að skýrast að miklu leyti af því hve lítil þekking á vandanum hefur verið til staðar. Nú sé staðan önnur.

„Nú þegar þekking hefur aukist hlýtur að teljast nauðsynlegt að grípa til viðeigandi aðgerða til að reyna að takmarka samfélagslegt tjón.“

Fá fordæmi eru til um sérstakar aðgerðir stjórnvalda vegna rakaskemmda og myglu en flutningsmenn tillögunnar segja að veðrátttan á Íslandi sé sérstök og ólík því sem fólk á að venjast í nágrannalöndum.

Rakaskemmdir eru algengt vandamál í nýbyggingum. Mygla getur haft mikil áhrif á heilsufar íbúa og eyðilagt fasteignir en tjón á innbúi vegna myglu nýtur ekki vátryggingaverndar. Erfitt er fyrir ófaglærða að koma auga á rakaskemmdir sem gerir þetta að flóknu vandamáli.

„Nauðsynlegt er að stjórnvöld reyni eftir fremsta megni að draga úr þeim neikvæðu afleiðingum sem rakaskemmdir og mygla hafa óneitanlega í för með sér.“