Fimmtán baráttusamtök fyrir jafnrétti segja í yfirlýsingu að þögn Íþróttasambands Íslands hvað varðar afstöðu Sundsambands Íslands (SSÍ) að útiloka trans konur úr afrekskeppnum sé „ógnvænleg“. Þau krefjast þess að SSÍ dragi atkvæði sitt til baka og ef það er ekki hægt að þá gefi þau út yfirlýsingu og biðji trans fólk afsökunar.
Auk þess er þess krafist að aukin verði fræðsla innan sambandsins og að ÍSÍ fordæmi afstöðu SSÍ.
Í yfirlýsingu samtakanna er málið rekið en eins og greint hefur verið ítarlega frá þá samþykkti Alþjóðasundsambandið (FINA) nýjar reglur í síðasta mánuði sem bannar trans konum að keppa í kvennaflokki á heimsmeistaramótum í sundgreinum. Sundsamband Íslands (SSÍ) kaus með reglunum.
Segja formanna SSÍ ljúga
Samtökin benda á í yfirlýsingu sinni að eftir það hafi formaður SSÍ, Björn Sigurðsson, haldið því fram í viðtali við Kastljós að með þessu atkvæði væri SSÍ ekki að tala um eða við trans börn og konur á Íslandi. Þetta er hreinlega ósatt.
„Öll sem hafa æft íþróttir með þann draum að verða afreksíþróttafólk vita að sá draumur byrjar á mjög ungum aldri. Þegar íþróttafólki, hvort sem er börnum, unglingum eða fullorðnum, er sagt á þau geti æft eins og þau vilja en að þau muni ekki vera velkomin á afreksmót, þá er það mismunun. Þetta eru nákvæmlega þau skilaboð sem SSÍ hefur sent trans sundfólki á Íslandi, sérstaklega trans konum,“ segir í yfirlýsingunni þar sem segir að ef að þögn ÍSÍ og annarra íþróttabandalaga vari mikið lengur þá sé ekki hægt að túlka hana með öðrum hætti en að þeim „finnist ekkert ámælisvert við þessa aðför að réttindum trans fólks.“
Þögn sé sama og aðgerðaleysi
„Við getum ekki sæst á að þetta alvarlega mál drukkni í þrúgandi þögn og aðgerðaleysi. Við getum ekki sæst á að íþróttasamfélagið láti eins og ekkert hafi gerst, láti eins og það sé eðlilegt að mismuna einum samfélagshóp á þennan afdráttarlausa hátt,“ segir í yfirlýsingunni og eru svo lagðar fram þrjár kröfur sem má sjá hér að neðan:
- Að SSÍ dragi atkvæði sitt til baka. Sé slíkt ekki hægt vegna tæknilegra atriða krefjumst við þess að sambandið gefi út opinberlega yfirlýsingu þar sem það segist ekki lengur geta staðið með atkvæðagreiðslu sinni og biður trans fólk afsökunar.
- Að SSÍ lofi að tala fyrir inngildingu og mannréttindum í komandi umræðum og kosningum annarra nefnda (svo sem Ólympíunefndanna, Evrópusamtaka og á norrænum vettvangi), í stað þess að standa fyrir mismunun og útskúfun.
- Að Íþróttasamband Íslands fordæmi afstöðu SSÍ og taki opinberlega afstöðu með réttindum trans fólks, þar með talið trans kvenna sem keppa í íþróttum á afreksstigi.
Fimmtán samtök skrifa undir yfirlýsinguna: Argafas, Intersex Ísland, Femínistafélag Háskóla Íslands, Hinsegin Vesturland, Hinsegin Austurland, Kvenréttindafélag Íslands, Q - félag hinsegin stúdenta, Tabú - Femínísk Fötlunarhreyfing, Trans Ísland, Rauða Regnhlífin, Samtökin 78, Slagtog - Femínísk sjálfsvörn, Stelpur Rokka, Styrmir Íþróttafélag, Öfgar.