Þing­flokkur Við­reisnar óskar þess að heil­brigðis­ráð­herra, og eftir at­vikum aðrir ráð­herrar, gefi skýrslu sam­dægurs, eða eins fljótt og auðið er í kjöl­far þess að nýjar sótt­varna­að­gerðir eru kynntar eða fram­lengdar af hálfu stjórn­valda.

Þingflokkurinn hefur sent forseta þingsins bréf þess efnis. Í bréfinu kemur fram að í upp­hafi far­aldurs hafi skort á upp­lýsingum til þingsins og því hafi þing­flokkurinn óskað þess að heil­brigðis­ráð­herra gæfi stöðu­skýrslu á tveggja vikna fresti. Þá­verandi ráð­herra varð við því.

„Í upp­hafi árs 2022 virðist enn nokkuð í land í viður­eigninni við heims­far­aldurinn og ó­vissa ríkir enn um hve­nær ætla má að dag­legt líf fólksins í landinu komist aftur í eðli­legt horf. Því óskar þing­flokkur Við­reisnar eftir því að heil­brigðis­ráð­herra og fjár­mála­ráð­herra, og eftir at­vikum aðrir ráð­herrar, gefi Al­þingi skýrslu sam­dægurs eða eins fljót og auðið er í kjöl­far þess að til­teknar sótt­varna­að­gerðir eru kynntar eða fram­lengdar af hálfu stjórn­valda,“ segir í bréfinu.

Óskað er sér­stak­lega eftir því að skýrslu­gjöfin feli í sér upp­lýsingar um for­sendur að baki þeim á­kvörðunum sem teknar eru hverju sinni, um fyrir­hugaðan árangur og á­hrif á sam­fé­lagið að öðru leyti.

Þá er þess óskað að á sama tíma upp­lýsi ráð­herrar Al­þingi um það hvaða að­gerðir verði lagðar fram til að mæta bæði efna­hags­legum og fé­lags­legum af­leiðingum sótt­varna­að­gerða hverju sinni.

„Með þessu móti fá for­sendur og rök­semdir stjórn­valda hverju sinni mark­vissari um­ræðu á vett­vangi þingsins,“ segir í bréfi Við­reisnar en þar er kallað eftir því að sam­spil ráð­herra og Al­þingis fái meiri um­ræðu í þessum málum.

„Það er ekki að­eins réttur þings að lýð­ræðis­leg um­ræða fari fram um sótt­varna­ráð­stafanir ríkis­stjórnarinnar sem hafa gríðar­leg á­hrif á sam­fé­lagið í heild sinni heldur er það bein­línis skylda þingsins að ræða þær og rækja þannig eftir­lits­hlut­verk sitt gagn­vart stjórn­völdum. Þessi skylda og réttur þingsins er enn ríkari þegar á­standið hefur varað svo lengi sem raunin er og nauð­syn­legt er að gagn­rýnin um­ræða fái að eiga sér stað. For­senda þess að Al­þingi geti sinnt þessu hlut­verki sínu er hins vegar mark­viss upp­lýsinga­gjöf ríkis­stjórnar,“ segir í bréfinu og að full á­stæða sé til þess að aukin að­koma þingsins verði nú að veru­leika.