Þingflokkur Viðreisnar óskar þess að heilbrigðisráðherra, og eftir atvikum aðrir ráðherrar, gefi skýrslu samdægurs, eða eins fljótt og auðið er í kjölfar þess að nýjar sóttvarnaaðgerðir eru kynntar eða framlengdar af hálfu stjórnvalda.
Þingflokkurinn hefur sent forseta þingsins bréf þess efnis. Í bréfinu kemur fram að í upphafi faraldurs hafi skort á upplýsingum til þingsins og því hafi þingflokkurinn óskað þess að heilbrigðisráðherra gæfi stöðuskýrslu á tveggja vikna fresti. Þáverandi ráðherra varð við því.
„Í upphafi árs 2022 virðist enn nokkuð í land í viðureigninni við heimsfaraldurinn og óvissa ríkir enn um hvenær ætla má að daglegt líf fólksins í landinu komist aftur í eðlilegt horf. Því óskar þingflokkur Viðreisnar eftir því að heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra, og eftir atvikum aðrir ráðherrar, gefi Alþingi skýrslu samdægurs eða eins fljót og auðið er í kjölfar þess að tilteknar sóttvarnaaðgerðir eru kynntar eða framlengdar af hálfu stjórnvalda,“ segir í bréfinu.
Óskað er sérstaklega eftir því að skýrslugjöfin feli í sér upplýsingar um forsendur að baki þeim ákvörðunum sem teknar eru hverju sinni, um fyrirhugaðan árangur og áhrif á samfélagið að öðru leyti.
Þá er þess óskað að á sama tíma upplýsi ráðherrar Alþingi um það hvaða aðgerðir verði lagðar fram til að mæta bæði efnahagslegum og félagslegum afleiðingum sóttvarnaaðgerða hverju sinni.
„Með þessu móti fá forsendur og röksemdir stjórnvalda hverju sinni markvissari umræðu á vettvangi þingsins,“ segir í bréfi Viðreisnar en þar er kallað eftir því að samspil ráðherra og Alþingis fái meiri umræðu í þessum málum.
„Það er ekki aðeins réttur þings að lýðræðisleg umræða fari fram um sóttvarnaráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem hafa gríðarleg áhrif á samfélagið í heild sinni heldur er það beinlínis skylda þingsins að ræða þær og rækja þannig eftirlitshlutverk sitt gagnvart stjórnvöldum. Þessi skylda og réttur þingsins er enn ríkari þegar ástandið hefur varað svo lengi sem raunin er og nauðsynlegt er að gagnrýnin umræða fái að eiga sér stað. Forsenda þess að Alþingi geti sinnt þessu hlutverki sínu er hins vegar markviss upplýsingagjöf ríkisstjórnar,“ segir í bréfinu og að full ástæða sé til þess að aukin aðkoma þingsins verði nú að veruleika.