Börn konu sem lést eftir að hafa verið sett í lífs­loka­með­ferð á Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja haustið 2019 segjast ekki hafa fengið neinar upp­lýsingar eða skýringar á því hvað væri að draga móður þeirra til dauða en hún var ekki greind með lífs­ógnandi sjúk­dóm þegar hún fékk hvíldar­inn­lögn á legu­deild HSS.

Í til­kynningu sem börn konunnar sendu til fjöl­miðla fyrr í kvöld kemur fram að þau vilji koma á­kveðnum hlutum á fram­færi í ljósi fjöl­miðla­um­fjöllunar um málið. Læknir sem starfaði hjá HSS á þeim tíma sem konan lést sætir nú lög­reglu­rann­sókn vegna málsins.

Börnin segjast ekki vita að hverju rann­sóknin beinist ná­kvæm­lega en hafa komið því á fram­færi að þau vilji að málið sé rann­sakað sem mann­dráp. „Móðir okkar dó 73 ára að aldri. Læknirinn sem setti hana á til­efnis­lausa lífs­loka­með­ferð er nú við störf á bráða­lyf­lækninga­deild Land­spítalans.“

„Þegar hún lagðist inn var hún ekki greind með neinn lífs­ógnandi sjúk­dóm og var ekki á neinum sterkum lyfjum. Hún var sett á lífs­loka­með­ferð sam­dægurs, án þess að vera spurð á­lits á því eða vera upp­lýst um það,“ segir í til­kynningu barnanna en þau kvörtuðu yfir þeirri þjónustu í kjöl­farið.

Börn konunnar segjast í­trekað hafa óskað eftir skýringum á því hvaða sjúk­dómar væru að draga hana til dauða en aldrei fengið svör. Þá hafi upp­lýsingarnar sem þau fengu verið rangar í mikil­vægum at­riðum þar sem læknar fóru með ó­sannindi til að koma í veg fyrir björgunar­til­raunir.

„Síðustu vikurnar voru móður okkar hreint kval­ræði. Þar sem henni var haldið í lyfja­móki var ekki hægt að ná eðli­legu sam­bandi við hana,“ segja börnin en þau lýsa því að þegar móðir þeirra reyndi að hafna með­ferðum hafi verið litið á það sem hegðunar­vanda­mál.

Gögnin styðji ekki frásögn læknisins

Fréttastofa Stöðvar tvö greindi frá því á dögunum að em­bætti land­læknis hafi haft málið til skoðunar frá því í nóvember 2019 en börn konunnar segir land­lækni hafa gert al­var­legar at­huga­semdir við með­ferðina, sú al­var­legasta að engar for­sendur væru fyrir hendi sem rétt­lættu lífs­loka­með­ferðina.

„Lífs­loka­með­ferð er loka­stig líknar­með­ferðar og felur það í sér að ekkert er gert til að lengja líf sjúk­lings, sýkingar ekki með­höndlaðar og næringu og vökva ekki haldið að sjúk­lingnum. Slíkri með­ferð er að­eins beitt þegar sjúk­lingur er að dauða kominn og stendur hún venju­lega að­eins í ör­fáa daga.“

Líkt og áður segir vilja börn konunnar að málið sé rann­sakað sem mann­dráp og er þar vísað til á­lits land­læknis þar sem fram kom að gögnin styðji ekki frá­sögn læknisins um að lífs­loka­með­ferðin hafi verið skráð sem mis­tök. Í lok til­kynningarinnar vísa börn konunnar til á­litsins þar sem segir orð­rétt:

„Þetta hafði þær af­leiðingar að mati land­læknis að í ellefu vikna langri legu hrakaði DJ; hún var með legu­sár, næringar­skort og sýkingar allt fram til and­látsins, sem verður að telja lík­legt að hafi orðið fyrr en ella vegna þeirrar með­ferðar sem hún hlaut.“