Þing­menn Pírata, Sam­fylkingarinnar og Við­reisnar hafa lagt fram þings­á­lyktunar­til­lögu þess efnis að þjóðar­at­kvæða­greiðsla um hvort halda skuli á­fram aðildar­við­ræðum Ís­lands við Evrópu­sam­bandið fari fram fyrir árs­lok 2023.

Þá vilja þau að eftir­farandi spurning verði borin upp í þjóðar­at­kvæða­greiðslunni:

„Vilt þú að Ís­land taki upp þráðinn í við­ræðum við Evrópu­sam­bandið með það að mark­miði að gera aðildar­samning sem borinn yrði undir þjóðina til sam­þykktar eða synjunar?“

Í greinar­gerð sem fylgir þings­á­lyktunar­til­lögunni segir að „fjöl­mörg efna­hags­leg, menningar­leg, lýð­ræðis­leg og sögu­leg rök hníga að því að nauð­syn­legt sé að gefa ís­lensku þjóðinni kost á því að láta í ljós vilja sinn um á­fram­hald á aðildar­við­ræðum við Evrópu­sam­bandið.“

Með þings­á­lyktun sem sam­þykkt var 16. júlí 2009 var ríkis­stjórninni falið að leggja inn um­sókn um aðild Ís­lands að Evrópu­sam­bandinu og að loknum við­ræðum við sam­bandið yrði haldin þjóðar­at­kvæða­greiðsla um væntan­legan aðildar­samning.

„Sú þings­á­lyktun er enn í fullu gildi enda hefur hún ekki verið felld úr gildi með annarri á­lyktun Al­þingis,“ segir í greinar­gerðinni.

Þegar ríkis­stjórn Fram­sóknar­flokksins og Sjálf­stæðis­flokksins lagði fram til­lögu til þings­á­lyktunar um að draga aðildar­um­sókn Ís­lands að Evrópu­sam­bandinu til baka í febrúar 2014 vakti það hörð við­brögð al­mennings.

Alls skrifuðu 53.555 manns undir á­skorun um að efnt yrði til þjóðar­at­kvæða­greiðslu um aðildar­við­ræðurnar.

Þá segir einnig í greinar­gerðinni að ó­hætt sé að segja að vatna­skil hafi orðið í um­ræðunni um stöðu Ís­lands í Evrópu með inn­rás Rússa í Úkraínu.

„Við­brögð ná­granna­ríkjanna við breyttri stöðu heims­mála hafa verið skýr. Í Dan­mörku var haldin þjóðar­at­kvæða­greiðsla og sam­þykkt að falla frá fyrir­vörum landsins um að taka fullan þátt í varnar­mála­sam­starfi ESB. Að sama skapi varð inn­rásin til þess að Svíar og Finnar sóttu um aðild að NATO.“