Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að sú undarlega staða gæti komið upp eftir kosningar að samningar um ríkisstjórnarmyndun og kjarasamningsviðræður falli saman eftir að forsendunefnd ASÍ og SA komst að þeirri niðurstöðu að forsendur kjarasamninga hafi ekki staðist. Hún segir það vilja verkalýðshreyfingarinnar að samningar standi þrátt fyrir forsendubrest og telur vinnumarkaðinn síst þurfa á átökum og óvissu að halda.
„Þrjár forsendur voru til grundvallar lífskjarasamningunum, lækkun vaxta, aukinn kaupmáttur og að stjórnvöld myndu standa við sínar yfirlýsingar. Nú er ljóst að stjórnvöld hafa ekki staðið við yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga og því hafa forsendur ekki staðist,“ segir Drífa í reglulegum föstudagspistli sínum.
Hún segir að nú ræði samninganefndir ASÍ og SA saman en bendir á að hvor aðili um sig geti sagt upp samningunum fyrir kl. 16 þann 30. september.
„Í kjarasamningunum sem voru undirritaðir vorið 2019 skipti aðkoma ríkisstjórnarinnar sköpum. Á spýtunni héngu skattabreytingar, barnabætur, fæðingarorlofið, húsnæðismál, umgjörð vinnumarkaðarins, vextir og lánamál auk lífeyrismála svo eitthvað sé nefnt. Það er rík hefð fyrir því að fara í þríhliða viðræður enda skiptir öllu máli fyrir daglegt líf launafólks hvaða ákvarðanir stjórnvöld taka á hverjum tíma. Kjarabætur geta komið í ýmsum myndum og þegar reynir á skiptir öllu að við séum með traust heilbrigðiskerfi og almannatryggingakerfi,“ segir Drífa.
Hún segir það enga tilviljun að ASÍ hafi beitt sér í kosningabaráttunni og segir nýrri ríkisstjórn bíða stór verkefni.