Persónuverndaryfirvöld í Danmörku úrskurðuðu í dag að notkun danskra vefsíðna á vefvöktunarforritinu Google Analytics stæðist ekki persónuverndarlög í landinu. Neytendasamtökin á Íslandi lýsa þessu sem „stóru skrefi“ og kalla eftir því að hið sama verði gert hér á landi.

Í tilkynningu um málið á vef Neytendasamtakanna er rakið að samtökin hafi ítrekað skorað á Persónuvernd að banna Google Analytics á Íslandi. Persónuverndaryfirvöld í Frakklandi og Austurríki hafi sömuleiðis bannað notkun á forritinu samkvæmt túlkun á svipuðum persónuverndarlögum og eru við lýði á Íslandi.

Samkvæmt tilkynningunni notast nær öll íslensk fyrirtæki og stofnanir forritið, jafnvel opinberar stofnanir eins og Alþingi og vefur stjórnarráðsins.

Google Analytics safnar upplýsingum frá gestum á vefsíðum til þess að hjálpa rekstaraðilum þeirra að greina hegðunarmynstur viðskiptavina sinna. Með forritinu geta fyrirtæki metið hversu vel markaðsherferðir þeirra hafa heppnast og gert breytingar til að laða til sín fleiri gesti. Neytendasamtökin telja upplýsingasöfnun af þessu tagi dæmi um „njósnahagkerfi“ sem stuðli að því að persónuupplýsingar gangi kaupum og sölum, gjarnan til óprúttinna aðila.