Sam­tökin Geð­hjálp segja í yfir­lýsingu að þau velti fyrir sér getu Land­læknis­em­bættisins til að sinna eftir­liti með heil­brigðis­stofnunum og að þau hafi á­hyggjur af við­brögðum stjórn­enda Land­spítalans vegna gagn­rýnna á­bendinga sem settar hafa verið fram um starf­semi mót­töku-, öryggis- og réttar­geð­deilda spítalans. Þau vilja að gerð verði óháð út­tekt á á starf­semi allra deilda geð­sviðs Land­spítalans.

Sam­tökin leggja til að kannað verði hvernig fyrir­byggja megi mann­réttinda­brot og lög­brot gagn­vart not­endum geð­heil­brigðis­þjónustu. Þá velta þau því einnig upp hvort að öryggis- og refsi­menning innan geðsviðsins hafi, á kostnað mann­úðar og skilnings, litað þróun og hug­mynda­fræði þjónustunnar á liðnum árum og geri enn.

Í yfir­lýsingunni er farið ítar­lega yfir það þegar fimm þá­verandi og nú­verandi starfs­menn öryggis- og réttar­geð­deildar Land­spítalans leituðu til þeirra í nóvember árið 2020 og sögðu þar frá al­var­legum at­vikum í starf­semi deildanna gagn­vart not­endum þjónustunnar. Á fundinum lýstu þau einnig skoðunum sínum á mann­auðs­málum á geð­sviði og kvörtuðu yfir því að það væri ekki hlustað.

„Vegna þessa leituðu þeir til Geð­hjálpar þar sem í­trekaðar á­bendingar þeirra um ára­bil hefðu ekki skilað neinum árangri hvorki hjá geð­sviðinu né innan stéttar­fé­laga. Það að starfs­fólk, bæði fyrr­verandi og nú­verandi skyldi leita til sam­taka eins og Geð­hjálpar kom okkur svo­lítið á ó­vart en segir sína sögu um mögu­lega við­bragðs­þurrð innan kerfisins,“ segir í yfir­lýsingu Geð­hjálpar.

Í kjöl­farið á því tók Geð­hjálp saman greinar­gerð sem send var til yfir­stjórnar spítalans, geð­sviðs og em­bættis land­læknis.

Taka ekki mark á athugasemdum því þær eru nafnalausar

Í yfir­lýsingunni lýsa þau undrun sinni á litlum við­brögðum yfir­stjórnar spítalans og eftir­lits­aðila hans, land­læknis­em­bættisins segjast ekki skilja það, og at­huga­semdir þeirra í fjöl­miðlum, eftir það á annan hátt en að land­læknis­em­bættið taki ekki fylli­lega mark á al­var­legum at­huga­semdum starfs­manna vegna þess að þau vilja ekki koma fram undir nafni.

„Þetta er að mati stjórnar Geð­hjálpar al­var­legt og eðli­legt að spyrja hvort Em­bætti land­læknis hafi sinnt eftir­lits­hlut­verki sínu með full­nægjandi hætti og hvort ekki hefði mátt telja rétt af em­bættinu að leita skýringa hjá Geð­hjálp, spyrja hvort þeir starfs­menn sem lögðu á­bendingarnar fram væru reiðu­búin að koma fram undir nafni í sam­tali við em­bætti Land­læknis og hefja ítar­lega rann­sókn í ljósi al­var­leika á­bendinganna,“ segir í yfir­lýsingunni.

Þá er farið yfir við­brögð em­bættisins eftir að málið kom upp og segja sam­tökin að það veki ekki upp hjá þeim bjart­sýni um að málin séu í réttum far­veg og óska þess nú að gerð verði sér­stök og óháð út­tekt á starf­semi allra deilda geð­sviðs Land­spítalans, að gerð verði sér­stök út­tekt á því hvernig starf­semi hefur verið háttað á öryggis- og réttar­geð­deildum spítalans með hlið­sjón af þeim al­var­legu á­sökunum sem fjöldi starfs­manna, að­stand­enda og not­enda hefur nú komið fram með og að farið verði yfir eftir­lits­hlut­verk Land­læknis­em­bættisins og lagt mat á það hve mikið vantar upp á til að em­bættið geti sinnt því með full­nægjandi hætti og hvort heppi­legra væri að önnur hlut­lausari og ó­tengdari stofnun/aðili sinni þessu eftir­liti.

Þá, leggja þau til, að lokum að gerð verði verði heildar­út­tekt á um­fangi og fram­kvæmd geð­heil­brigðis­þjónustu á Ís­landi.

„Málið er al­var­legt og krefst þess að brugðist verði við af festu. Í greinar­gerð þeirri sem Geð­hjálp sendi Land­læknis­em­bættinu í nóvember árið 2020 og með­fylgjandi saman­tekt lög­fræðings sam­takanna í að­draganda þeirrar um­fjöllunar sem hófst á RÚV í síðasta mánuði koma fram mjög al­var­legar á­bendingar er varðað geta við hegningar­lög, lög­ræðis­lög, lög um réttindi sjúk­linga, lög um réttinda­gæslu fatlaðra auk mann­réttinda­kafla stjórnar­skrárinnar. Á öryggis- og réttar­geð­deildum Land­spítalans dvelur fólk svo mánuðum og jafn­vel árum skiptir. Það verður að vera hægt að treysta því að starf­semi sem fer þar fram, sem og á fleiri lokuðum deildum standist lög og á­kvæði stjórnar­skrárinnar,“ segir í yfir­lýsingunni.