Samtökin Geðhjálp segja í yfirlýsingu að þau velti fyrir sér getu Landlæknisembættisins til að sinna eftirliti með heilbrigðisstofnunum og að þau hafi áhyggjur af viðbrögðum stjórnenda Landspítalans vegna gagnrýnna ábendinga sem settar hafa verið fram um starfsemi móttöku-, öryggis- og réttargeðdeilda spítalans. Þau vilja að gerð verði óháð úttekt á á starfsemi allra deilda geðsviðs Landspítalans.
Samtökin leggja til að kannað verði hvernig fyrirbyggja megi mannréttindabrot og lögbrot gagnvart notendum geðheilbrigðisþjónustu. Þá velta þau því einnig upp hvort að öryggis- og refsimenning innan geðsviðsins hafi, á kostnað mannúðar og skilnings, litað þróun og hugmyndafræði þjónustunnar á liðnum árum og geri enn.
Í yfirlýsingunni er farið ítarlega yfir það þegar fimm þáverandi og núverandi starfsmenn öryggis- og réttargeðdeildar Landspítalans leituðu til þeirra í nóvember árið 2020 og sögðu þar frá alvarlegum atvikum í starfsemi deildanna gagnvart notendum þjónustunnar. Á fundinum lýstu þau einnig skoðunum sínum á mannauðsmálum á geðsviði og kvörtuðu yfir því að það væri ekki hlustað.
„Vegna þessa leituðu þeir til Geðhjálpar þar sem ítrekaðar ábendingar þeirra um árabil hefðu ekki skilað neinum árangri hvorki hjá geðsviðinu né innan stéttarfélaga. Það að starfsfólk, bæði fyrrverandi og núverandi skyldi leita til samtaka eins og Geðhjálpar kom okkur svolítið á óvart en segir sína sögu um mögulega viðbragðsþurrð innan kerfisins,“ segir í yfirlýsingu Geðhjálpar.
Í kjölfarið á því tók Geðhjálp saman greinargerð sem send var til yfirstjórnar spítalans, geðsviðs og embættis landlæknis.
Taka ekki mark á athugasemdum því þær eru nafnalausar
Í yfirlýsingunni lýsa þau undrun sinni á litlum viðbrögðum yfirstjórnar spítalans og eftirlitsaðila hans, landlæknisembættisins segjast ekki skilja það, og athugasemdir þeirra í fjölmiðlum, eftir það á annan hátt en að landlæknisembættið taki ekki fyllilega mark á alvarlegum athugasemdum starfsmanna vegna þess að þau vilja ekki koma fram undir nafni.
„Þetta er að mati stjórnar Geðhjálpar alvarlegt og eðlilegt að spyrja hvort Embætti landlæknis hafi sinnt eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti og hvort ekki hefði mátt telja rétt af embættinu að leita skýringa hjá Geðhjálp, spyrja hvort þeir starfsmenn sem lögðu ábendingarnar fram væru reiðubúin að koma fram undir nafni í samtali við embætti Landlæknis og hefja ítarlega rannsókn í ljósi alvarleika ábendinganna,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá er farið yfir viðbrögð embættisins eftir að málið kom upp og segja samtökin að það veki ekki upp hjá þeim bjartsýni um að málin séu í réttum farveg og óska þess nú að gerð verði sérstök og óháð úttekt á starfsemi allra deilda geðsviðs Landspítalans, að gerð verði sérstök úttekt á því hvernig starfsemi hefur verið háttað á öryggis- og réttargeðdeildum spítalans með hliðsjón af þeim alvarlegu ásökunum sem fjöldi starfsmanna, aðstandenda og notenda hefur nú komið fram með og að farið verði yfir eftirlitshlutverk Landlæknisembættisins og lagt mat á það hve mikið vantar upp á til að embættið geti sinnt því með fullnægjandi hætti og hvort heppilegra væri að önnur hlutlausari og ótengdari stofnun/aðili sinni þessu eftirliti.
Þá, leggja þau til, að lokum að gerð verði verði heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.
„Málið er alvarlegt og krefst þess að brugðist verði við af festu. Í greinargerð þeirri sem Geðhjálp sendi Landlæknisembættinu í nóvember árið 2020 og meðfylgjandi samantekt lögfræðings samtakanna í aðdraganda þeirrar umfjöllunar sem hófst á RÚV í síðasta mánuði koma fram mjög alvarlegar ábendingar er varðað geta við hegningarlög, lögræðislög, lög um réttindi sjúklinga, lög um réttindagæslu fatlaðra auk mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans dvelur fólk svo mánuðum og jafnvel árum skiptir. Það verður að vera hægt að treysta því að starfsemi sem fer þar fram, sem og á fleiri lokuðum deildum standist lög og ákvæði stjórnarskrárinnar,“ segir í yfirlýsingunni.