Guð­jón Sigurðs­son, for­maður MND fé­lagsins, telur eðli­legt og mikil­vægt að sjúk­lingar fái að­komu að stjórn Land­spítala. Þeir hafi mesta hags­muni af þeirri þjónustu sem veitt er. Með þessu yrði tekið al­vöru skref í átt til sam­ráðs við sjúk­linga, í stað þess sýndar­sam­ráðs sem hingað til hafi við­gengist.

Willum Þór Þórs­son heil­brigðis­ráð­herra hefur sent inn drög að frum­varpi um nýja sjö manna stjórn spítalans. Auk formanns yrðu skipaðir tveir full­trúar með sér­þekkingu á rekstri og á­ætlana­gerð, tveir með sér­þekkingu á heil­brigðis­þjónustu og vísinda­rann­sóknum og tveir full­trúar starfs­fólks án at­kvæðis­réttar. Sjúk­lingar myndu ekki hafa neinn máls­vara.

„Við viljum hafa um það að segja hvernig þjónusta við okkur er veitt. Rétt eins og aðrir sem hafa hags­muni af því að spítalinn sé góður, svo sem starfs­fólk, ríkið og fleiri,“ segir Guð­jón. „Þá gætum við rifið kjaft strax í upp­hafi. Áður en allt er orðið niður­neglt. Til að það þurfi ekki að vinda ofan af hlutunum eftir á.“

Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins.
Fréttablaðið/Ernir

Máli sínu til stuðnings vísar Guð­jón til Samnings Sam­einuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ís­lensk stjórn­völd undir­rituðu samninginn árið 2007 en hafa ekki enn lög­fest hann. Ör­yrkja­banda­lagið segist treysta því að hann verði lög­festur á yfir­standandi þingi.

Í 4. grein samningsins segir að við þróun og inn­leiðingu lög­gjafar, stefnu og annars á­kvarðana­töku­ferlis varðandi mál­efni fatlaðs fólks, skuli aðildar­ríkin hafa náið sam­ráð við það og tryggja virka þátt­töku. Það er með milli­göngu þeirra sam­taka sem koma fram fyrir þeirra hönd. „Þetta þýðir að öll á­kvarðana­taka stjórn­valda sem lýtur að fötluðu fólki sé tekin eftir sam­ráðs­ferli sem byrjar strax í upp­hafi,“ segir í samningnum.

Fjöl­mörg sjúk­linga­sam­tök eru í landinu. Svo sem Krabba­meins­­fé­lagið, Geð­hjálp, Ein­stök börn, Blindra­fé­lagið, Fé­lag heyrnar­lausra, Hjarta­heill, Sam­tök lungna­sjúk­linga, MS fé­lagið og mörg önnur. Guð­jón segir að sjúk­lingar hafi miklar skoðanir á því hvernig þjónustan við þá eigi að vera. Eðli­legt væri að stjórnar­setu í Land­spítalanum yrði skipt á milli sam­taka og heildar­sam­tök á borð við Ör­yrkja­banda­lagið hefðu yfir­um­sjón með því. Hann segist þó ekkert hafa heyrt frá öðrum sam­tökum varðandi til­lögu sína, en gerir ráð fyrir að fleiri til­lögur berist.

„Með þessari að­gerð yrði al­vöru sam­ráð. Ekkert eftir á kjaft­æði,“ segir Guð­jón. Enn sé sam­ráð við fatlað fólk frekar upp á punt en í al­vöru.