„Lögreglan verður að bera ábyrgð á því sem hún gerir,“ segir Guðrún Haraldsdóttir, móðir Heklu Lindar Jónsdóttur sem lést í átökum við lögreglu árið 2019.

Hún og faðir Heklu vinna nú, ásamt lögmannsstofu, að málsókn gegn ríkinu vegna málsins, en umboðsmaður Alþingis hefur lagt til að veitt verði gjafsókn í máli foreldranna. Guðrún segir í samtali við Fréttablaðið að bráðlega muni þau höfða málið, undirbúningurinn sé á lokametrunum.

Þau vilja að ríkið viðurkenni að mistök áttu sér stað í málnu, en áður höfðu Héraðssaksóknari og Ríkissaksóknari látið það niður falla Lögreglan hefur haldið því fram að viðurkenndum aðferðum hafi verið beitt við handtökuna á Heklu.

„Við viljum að það beri einhver ábyrgð. Það er fáránlegt að þetta hafi verið viðurkennd aðferð. Hún var beitt ótrúlegum órétti. Ekki síst vegna þess að hún var í þessu ásigkomulagi,“ segir Guðrún.

Fréttablaðið/Aðsend

Guðrún hefur áður fjallað um málið, til að mynda í fréttaskýringaþættinum Kompás árið 2020, og síðan í hlaðvarpinu Sterk saman á dögunum. Hekla var í neyslu, en kvöldið sem andlát hennar bar að hafði hún neitt róandi og örvandi efna og fór hún í geðrofsástand.

Hekla var hlaupandi um Reykjavíkurborg á meðan vinur hennar reyndi að ná í sjúkrabíl, og hringdi fjórum sinnum, án árángurs.

Hins vegar komu tveir lögregluþjónar , en Hekla reyndi að koma sér frá þeim, en þeir handtóku hana. Það gerðu þeir meðal annars með því að taka hana niður og liggja ofan á henni. Guðrún lýsir öðrum þeirra sem mjög stórum karlmanni og hinum sem manni sem þjálfar í bardagalistum og sjálfsvarnaríþróttum.

Á meðan á handtökunni stóð virðist sem annar lögregluþjónanna hafi hlaupið í lögreglubíl til að ná í búnað, á meðan hinn lá ofan á henni. Þegar hinn kom aftur hafi Hekla ekki verið með lífsmark. Í kjölfarið var hringt á sjúkrabíl, sem kom í það skiptið en endurlífgun bar ekki árángur.

Guðrún hefur eftir réttarmeinafræðingi að „þvinguð lega á grúfu hefði klárlega átt þátt í andláti Heklu Lindar.“ Þar að auki segir hún óhuggulegt hversu marga áverka Hekla var með um líkamann eftir andlátið.

„Svona má ekki gerast“

„Afhverju er verið handtaka einhverja konu? Ef ég væri að hlaupa þá væri ég ekki handtekin. Þetta var bara afþví að hún var fíkill,“ segir Guðrún, sem bætir við að framburður lögreglunnar í málinu hafi verið mjög á reki.

Auk þess skilst henni að atvikið hafi orðið til þess að lögregluþjónar fóru að bera búkmyndavélar, og segir að það sé eitthvað sem ætti bæði að vernda lögregluna sem og borgarana.

Spurð um hvort hún hafi trú á því að ríkinu verði dæmd í óhag í málinu segir Guðrún: „Ég hef trú á því, vegna þess að það verður að vera fordæmi fyrir þessu. Svona má ekki gerast.“

Fréttablaðið/Aðsend