Vin­sældir Donald Trump, fyrr­verandi for­seta Banda­ríkjanna, virðast fara vaxandi meðal stuðnings­manna Repúblikana­flokksins. Ný könnun Qu­innipiac leiðir í ljós að 78% stuðnings­manna Repúblikana­flokksins vilja að Trump bjóði sig fram að nýju árið 2024.

Donald Trump þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Joe Biden, fram­bjóðanda Demó­krata, í kosningunum 2020 en miðað við könnun Qu­innipiac er enn tals­verð eftir­spurn eftir for­setanum fyrr­verandi meðal kjós­enda Repúblikana.

Sam­bæri­leg könnun í maí síðast­liðnum leiddi í ljós að 66% stuðnings­manna Repúblikana vildu að Trump færi fram árið 2024.

Könnunin nú leiðir í ljós að hann nýtur nokkuð víð­tæks trausts meðal kjós­enda flokksins. Þannig sögðust 85% að­spurðra að hann hefði góð á­hrif á flokkinn og 84% sögðu að hann hefði já­kvæð á­hrif á banda­rísk stjórn­mál.

Eins og gefur að skilja er þessu þver­öfugt farið meðal stuðnings­manna Demó­krata­flokksins. 94% sögðu að hann hefði nei­kvæð á­hrif á banda­rísk stjórn­mál og 88% sögðust telja að hann hefði nei­kvæð á­hrif á Repúblikana­flokkinn.

Þeir sem styðja hvorugan flokkinn eru þarna á milli, en 58% þeirra sögðust telja að Trump ætti ekki að bjóða sig fram til for­seta árið 2024.