Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur óskað eftir því við hæstiréttur Bandaríkjanna fari aftur yfir ákvörðun áfrýjunardómstóls um að ógilda dauðadóm yfir Dzhokhar Tsarnaev sem stóð ásamt bróður sínum, Tarmerlan, að sprengjuárásinni í Boston-maraþoninu árið 2013 þar sem þrír létust og hundruð særðust.
„Okkar von er að þetta muni leiða til þess að upprunalegi dómurinn verði tekinn upp á ný og forðast að halda ný réttarhöld þegar kemur að dauðarefsingunni,“ sagði alríkissaksóknarinn Andrew Lelling í yfirlýsingu í gær um málið en CNN greinir frá.
Lelling sagði marga hafa haldið því fram að það myndi ekki fæla aðra frá glæpum með því að taka Tsarnaev af lífi en hann sagði málið ekki snúast um fælingarmátt. „Þetta snýst um réttlæti,“ sagði hann og bætti við að glæpir hans væru það alvarlegir að hann væri einn af fáum sem ætti skilið dauðarefsinguna.
Mun aldrei losna úr fangelsi
Tarmerlan lést í skotbardaga við lögreglu nokkrum dögum eftir sprengjuárásina í apríl 2013 en Tsarnaev var handtekinn eftir mikla leit og var árið 2015 dæmdur til dauða vegna árásarinnar og að hafa myrt lögreglumann meðan hann var á flótta undan lögreglunni. Tsarnaev var aðeins nítján ára þegar árásin átti sér stað en bróðir hans var 26.
Áfrýjunardómstóllinn snéri í síðasta mánuði sakfellingu Tsarnaev við í þremur brotaliðum af fimm en dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að ákvarða refsingu hans að nýju. Lögmenn hans höfðu þá fært rök fyrir því að réttarhöldin hafi farið fram í Boston stuttu eftir árásina og því hafi hann ekki fengið sanngjörn réttarhöld.
Þrátt fyrir að hafa ógilt dauðarefsinguna tóku dómarar við áfrýjunardómstólsins skýrt fram að Tsarneav myndi aldrei losna úr fangelsi. „Eina spurningin sem eftir stendur er hvort ríkið muni binda enda á líf hans með aftöku.“
A Statement from U.S. Attorney Andrew Lelling on decision to appeal Tsarnaev ruling. pic.twitter.com/367bFeF4Ej
— David Abel (@davabel) August 21, 2020