Í dag er lögð fram á Alþingi skýrslubeiðni til dómsmálaráðherra um stöðu þjóðkirkjunnar og tengsl hennar við ríkisvaldið umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Fram kemur í greinargerð að tilgangurinn með skýrslubeiðninni sé ekki að vinna að því að þjóðkirkjan verði lögð niður eða grafa undan henni, heldur að draga saman upplýsingar sem eru forsenda þess að ræða aðskilnað ríkis og kirkju.

Í beiðninni er meðal annars óskað upplýsinga um lögboðin verkefni og skyldur kirkjunnar umfram önnur trúfélög og hvaða samningar séu í gildi á milli íslenska ríkisins og kirkjunnar. Þá er einnig óskað upplýsinga um hversu háar greiðslur kirkjan fær miðað við fjölda skráða meðlimi.

Þriðjungur stendur utan þjóðkirkjunnar

Fram kemur í greinargerð með skýrslubeiðninni að frá árinu 2009 hefur skráðum meðlimum fækkað um jafnt og þétt og að samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands standi um þriðjungur þjóðarinnar utan þjóðkirkjunnar. Til samanburðar hafi um aldamótin um 89 prósent landsmanna verið skráð í þjóðkirkjuna. Þá hafi kannanir undanfarið sýnt að talsverður meirihluti landsmanna styðji aðskilnað ríkis og kirkju. 

„Tilgangurinn beiðninnar er að fá ráðherra til að skýra betur sérstöðu þjóðkirkjunnar umfram önnur trúfélög. Bæði fjárhagslega og að öðru leyti. Menn eru oft að velta stöðu hennar fyrir sér og hvort það eigi að skilja að ríki og kirkju. Menn tala um að hún hafi tiltekna stöðu og hlutverk og að hún veiti fleirum þjónustu en einungis þeim sem eru skráðir í kirkjuna. Tilgangurinn beiðninnar er að draga þetta allt fram svo hægt verði að ræða framhaldið á grundvelli þokkalega góðra upplýsinga og staðreynda,“ segir þingmaður Viðreisnar Jón Steindór Valdimarsson í samtali við Fréttablaðið í dag.  

Jón er einn þeirra þingmanna sem leggur beiðnina fram en þingmenn Viðreisnar, VG, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Pírata leggja hana fram saman. 

Jón tekur þó fram að umræða muni að öllum líkindum ekki fara fram í dag því slíkar umræður þurfi að samþykkja. Hann bjóst þó fastlega við því að skýrslubeiðnin yrði samþykkt.

„Það kæmi mér mjög á óvart ef hún verður ekki samþykkt. Ég hef fulla trú á því,“ segir Jón Steindór að lokum.

Skýrslubeiðnina og greinargerðina er hægt að skoða nánar hér á heimasíðu Alþingis.

Bjarni vill efla sjálfstæði kirkjunnar

Umræða um aðskilnað ríkis og kirkju fór fram á kirkjuþingi sem fór fram um helgina og þar sagði fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, að lítil sanngirni væri í málflutningi sumra þeirra sem hæst tala um aðskilnað ríkis og kirkju og um að best færi á því að ríkið hætti algjörlega að hafa nokkur afskipti af fjármálum neinna trúfélaga.“ 

Í ræðu sinni sagði Bjarni að ekki stæði til með neinum hætt að skerða framlög ríkisins til kirkjunnar. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að þær greiðslur sem renna til kirkjunnar, svo sem í kristnisjóð, kirkjumálasjóð, jöfnunarsjóð sókna og til höfuðkirkna fari beint til kirkjunnar og að hún beri ábyrgð á ráðstöfun þessara peninga. Ríkið ætti að hlutast sem minnst til um skiptingu og ráðstöfun fjárframlaga. Kirkjan ætti alfarið að taka við eigin starfsmannamálum.

Sjá einnig: Þeir sem ekki hafi upplifað áföll tali hæst um aðskilnað