Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra auk Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar eru sammála um að mál þingmannanna á drykkjusamsætinu á Klaustur bar í síðustu viku eigi að fara fyrir siðanefnd Alþingis en bæði mættu þau í þjóðmálaþáttinn Sprengisand á Bylgjunni í morgun.

Sumt við ummælin kemur Sigurði Inga ekki á óvart
Í viðtalinu kemur fram að ummæli þingmannanna hafi ekki komið Sigurði Inga á óvart þó hann hafi aldrei upplifað slíka kerfisbundna kven-og mannfyrirlitningu.

„Sumt kom mér ekki á óvart en ég hef aldrei upplifað að menn geti setið saman í þrjá klukkustunda og farið kerfisbundið með þessa kven- og mannfyrirlitningu sem þarna fór fram. Þó að þingið þurfi að takast á við þetta að þá bera þeir sem þarna voru alla ábyrgð á þessu.“

Ábyrgðin sé þingmannanna sjálfra en málið komi þinginu samt við
Þorgerður Katrín tekur undir með Sigurði Inga um að ábyrgði væri þingmannanna en lagði samt áherslu á að málið kæmi Alþingi við svo hægt yrði að bæta vinnustaðamenningu á þinginu.

„Ég get tekið undir það að þeirra er ábyrgðin. Þessi lágkúra sem birtist okkur á Klaustur barnum er algjörlega á þeirra ábyrgð. 

Að því sögðu að þá finnst mér ekki hægt að segja að bara þeirra sé ábyrgðin og að þetta komi okkur ekki við lengur. Mér finnst skipta máli að konur og ekki bara út í samfélaginu heldur líka inni á þingi, fái að vera öruggar í ákveðinni vinnustaðamenningu. Og vinnustaðamenningin eins og hún hefur birst á þingi er ekkert endilega alltaf góð.“

Sjá einnig: Natalie: „Fann til þegar ég las ummæli þingmannanna“

Í framhaldi af því segir Þorgerður að það sé mikilvægt að siðanefnd Alþingis komi saman svo hún geti fjallað um málið, sem óháð nefnd á vegum þingsins. Sigurður Ingi tekur undir með Þorgerði og segir óhjákvæmilegt að það verði gert og að málið hafi einhverjar afleiðingar.  

„Það er auðvitað óhjákvæmilegt og ég get verið sammála Katrínu í því og í mínum huga er það augljóst. Ég held það sé óhjákvæmilegt að þetta hafi afleiðingar.“