Innlent

Vilja að biskup reki „klámklerkinn“

Pétur Gunnlaugsson og Ólafur Ísleifsson bregðast harkalega við kveðskap Davíðs Þórs Jónssonar, sóknarprests, um Arnþrúði Karlsdóttur. Pétur telur biskup verða að reka Davíð Þór fyrir að sem hann kallar „algjörlega siðlaust níð.“

Pétur Gunnlaugsson og Ólafur Ísleifsson vilja að biskup taki á Davíð Þór vegna níðvísu um Arnþrúði Karlsdóttur. Fréttablaðið/Samsett

Pétur Gunnlaugsson, lögmaður og umsjónarmaður Síðdegisútvarpsins á Útvarpi Sögu, og doktor Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og þingmaður Flokks fólksins, ræddu lagið Arnþrúður er full eftir Davíð Þór Jónsson, prest í Laugarneskirkju, á föstudaginn.

 „Varðandi klerkinn þarna, klámklerkinn, Davíð Þór Jónsson, þá á að reka hann fyrir siðlaus níðskrif,“ sagði Pétur sem brást þarna við frétt Vísis.is um að séra Davíð ætti býsna harkalegan texta um Arnþrúði Karlsdóttur á fyrirhugaðri hljómplötu pönksveitarinnar Austurvígstöðvarnar.

Pétur hélt áfram og rifjaði upp ritstjóratíð Davíðs Þórs á klámblaðinu Bleikt&blátt. „En þessi klerkur, hann var ritstjóri á sínum tíma, yfir hérna klámblaði. Klámblaði sem að... það versta við það var að þar var hlekkur yfir í barnaklám. Sem var í þessu blaði sem að hann ritstýrði.“

Alþingismanninum Ólafi Ísleifssyni var einnig nokkuð niðri fyrir og spurði Pétur hvað biskup muni gera.

Á svari Pétur er ekki annað að skilja en að málið verði einmitt borið fyrir Agnesi M. Sigurðardóttur biskup: „Þetta er náttúrlega alveg makalaust, að þetta skuli eiga sér stað. En það kemur sjálfsagt í ljós núna fljótlega.“

Þá bætti Pétur við að úrsögnum úr þjóðkirkjunni hljóti að halda áfram ef „svona menn fá að starfa innan þjóðkirkjunnar. Hann heldur þessu bara áfram. Níðskrifum. Ef honum er illa við einhvern, sem hefur aðrar skoðanir en hann, þá bara ræðst hann á þá með níðskrifum.“

Davíð Þór og Arnþrúður og Pétur hafa lengi eldað grátt silfur og skemmst er að minnast samtals Arnþrúðar og Péturs við Davíð Þór í mars 2016. 

Davíð Þór var þá héraðsprestur á Eskifirði og þau hringdu í hann í beinni útsendingu til þess að ræða hugsanlegt framboð hans til embættis forseta Íslands.

„Þið eruð ídjóts!“ 

Samtalið var stutt og lauk með því að Davíð Þór skellti á útvarpsfólkið með þessum orðum: „Þið eruð idjóts! þessu samtali er lokið, veriði sæl!“

Ólafur Ísleifsson sagðist í samtali sínu við Pétur gera ráð fyrir að viðbragða biskups hljóti að verða leitað. „Ég er nú mjög dyggur þjóðkirkjumaður og hef alltaf verið og ég vil auðvitað veg þjóðkirkjunnar sem mestan,“ sagði þingmaðurinn og bætti við að hann teldi marga landsmenn hljóti að velta stöðu Davíðs fyrir sér.

Og Pétur tók undir: „Þetta er ekki einhver venjulegur siðlaus bloggri. Þetta er prestur sem þiggur laun hér.“

„Þetta er miklu meira en það Pétur,“ sagði Ólafur og greip orðið. „Þetta er vígður þjónn íslensku þjóðkirkjunnar sem leyfir sér að bera á borð hér róg og illmælgi. Ég kann ekki að meta svona. Ég ætla bara að leyfa mér að segja það.“ 

Hægt er að hlusta á samtal Péturs og Ólafs á vef Útvarps Sögu. Umræðan um Davíð Þór hefst undir lok þáttarins á 52. mínútu.

Braginn Arnþrúður er full eftir Davíð Þór má nálgast hér en annað erindið er eftirfarandi:

Boðið er upp á hatur og heift

og hræðslan ein ríkjum ræður.

Í tröllauknum skömmtum skítnum er dreift

og skvett á okkar minnstu bræður.

Af kaldrifjuðu ofstæki er kynt undir ótta

við kúgaða menn og hrjáða,

við umkomulaust fólk á flótta

sem fær engu um líf sitt að ráða.

Og áfram mallar hið illgjarna bull

því Arnþrúður er full.

Endalaust mallar hið illgjarna bull

og Arnþrúður er full.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lífið

Jón Gnarr ruglaði í Pétri Gunn­laugs­syni á Út­varpi Sögu

Lífið

Jón Gnarr sver Elísu af sér

Lífið

Arnþrúður hvikar hvergi og segir Gnarr vera Elísu

Auglýsing

Nýjast

Listamenn segja Seðlabankann vanvirða listina með púrítanisma

Vegagerðin „afturkallar“ óveðrið

Flestir læknar upp­lifa truflandi van­líðan og streitu

Tómas segir rafrettum beint að börnum

Hægt að skilja um­búðirnar eftir til endur­vinnslu

Komu upp um þurr­mjólkursmygl

Auglýsing