Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segist ánægður með ákvörðun Seðlabankans um lækkun stýrivaxta sem tilkynnt var í morgun. Hann segist nokkuð vongóður um að fjármálakerfið fylgi lækkunum eftir en segir hafa verið vöntun á því í gegnum tíðina.

Eins og fram hefur komið tilkynnti peningastefnunefnd Seðlabankans í morgun ákvörðun sína um lækkun stýrivaxta um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verði því 3,5 prósent.

„Þetta eru auðvitað bara mjög gleðileg tíðindi og algjörlega í samræmi við það sem við lögðum upp með þegar við gerðum Lífskjarasamninginn. Þar reiknuðum við með að samningurinn væri meðal annars um að skapa hér skilyrði fyrir verulegri vaxtalækkun,“ segir Vilhjálmur.

„Við vonuðumst til að innan ekki langs tíma yrði stýrivaxtalækkunin búin að skila svona einu prósenti og það hefur nú þegar gengið eftir, þó ytri skilyrði hafi hjálpað til, var Lífskjarasamningurinn undirstaða þess,“ segir hann.

„Það sem ég er hinsvegar mjög óánægður með er að viðskiptabankarnir og fjármálakerfið virðist ekki vera að skila þessari lækkun til neytenda eins og þeir ættu að gera og það verður mjög fróðlegt að fylgjast með fjármálakerfinu í heild sinni og hvernig þeir muni bregðast við þessari nýjustu stýrivaxtalækkun,“ segir Vilhjálmur og segir það ekki nóg að Seðlabankinn lækki stýrivexti ef hitt fylgi ekki á eftir.

Hann segir um vera að ræða ákall og áskorun til fjármálafyrirtækja að skila umræddri lækkun til neytenda og fyrirtækja, því það hafi verið markmiðið með kjarasamningum, að auka ráðstöfunartekjur fólks með lægri vaxtakostnaði. Aðspurður hvort hann sé vongóður svarar Vilhjálmur því játandi.

„Já, ég ætla að leyfa mér að vera vongóður núna. Að þeir, og fyrirgefðu orðbragðið, drullist til þess að skila þessu núna til neytenda, því verkalýðshreyfingin mun ekki láta það átölulaust ef það ekki gerist, það er alveg ljóst,“ segir hann að lokum. „Það hefur ekki vafist fyrir þessu sömu aðilum þegar stýrivextir eru hækkaðir, að þá hafa þær hækkanir yfirleitt skilað sér fljótt og vel til neytenda.“