„Forseti ASÍ verður að líta í eigin barm, segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness,og að það komi sér á óvart að Drífa skuli segja ef sér og hætta strax.

„Ég hefði kannski búist við yfirlýsingu frá henni um að hún byði sig ekki fram aftur á Alþýðusambandsþinginu í október. Henni hlýtur að vera ljóst að hún nýtur ekki stuðnings formanna tveggja stærstu aðildarfélaganna. Það er grundvallaratriði fyrir forseta ASÍ að njóta trausts formanna aðildarfélaganna. Forseti ASÍ vinnur fyrir aðildarfélögin en ekki öfugt,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að hann, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi mikið reynt að bæta samskiptin við forseta ASÍ og að um það beri fjöldi funda vitni.

„Eftir að ég sagði af mér sem varaforseti ASÍ vegna samskiptaörðugleika við forseta sambandsins var meðal annars gripið til þess ráðs að fjölga varaforsetum í þrjá til að bæta samskiptin,“ segir Vilhjálmur en berlega hafi komið í ljós að það hafi ekki haft tilætluð áhrif.

„Forseti ASÍ verður að líta í eigin barm og skoða hvað hún hefði getað gert öðruvísi til að afstýra þeirri stöðu sem hún lenti í. Hún hefði þurft að bæta upplýsingastreymi til formanna aðildarfélaga og -samtaka og nánustu samstarfsmanna. Í gegnum upplýsingastreymi og gagnsæi hefði hún getað byggt upp traust sem hún gerði ekki.“