Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og fyrsti varaforseti Alþýðusambandsins, hefur nú ákveðið að segja af sér en þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag. Samkvæmt heimildum RÚV tilkynnti Vilhjálmur forseta ASÍ um uppsögnina fyrir hádegi.

ASÍ hafnaði í dag málaleitan Samtaka atvinnulífsins um að leita leiða til að draga úr launakostnaði fyrirtækja en SA lýstu yfir vonbrigðum með ákvörðunina.

Uppsögn Vilhjálms var gerð í mótmælaskyni en hann var ósáttur við að verkalýðshreyfingin vildi ekki lækka mótframlag í lífeyrissjóði atvinnurekenda úr 11,5 í 8 prósent. Þá vildi hann að staðið væri við launahækkanir sem voru um mánaðarmótin.

Samtök atvinnulífsins segja að launahækkunin 1. apríl stuðli að fleiri uppsögnum starfsfólks en annars hefði orðið. Tímabundin lækkun mótframlags í lífeyrissjóði hefði mildað verulega höggið sem fyrirtækin verða fyrir vegna launahækkunarinnar ofan á gjörbreytta efnahagsstöðu.

„Af samtölum mátti ráða að ekki næðist breið sátt um að fresta að hluta eða öllu leyti umsömdum launahækkunum en SA bundu þó vonir við að sátt gæti náðst um tímabundna lækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóð úr 11,5% í 8%. Í svari samninganefndar ASÍ er þeirri leið einnig hafnað,“ segir í tilkynningu SA frá því fyrr í dag.

Að því er kemur fram í frétt RÚV stendur miðstjórnarfundur Alþýðusambandsins nú yfir og verður þar fjallað um tillögur SA um að lækka móttframlagið.

Fréttin hefur verið uppfærð.