Hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson fer ekki lengur með mál tónlistarmannsins Ingólfs Þórarinssonar. Vilhjálmur staðfestir þetta við Fréttablaðið og segir að um sameiginlega ákvörðun þeirra hafi verið að ræða.

Ingólfur, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, kærði í síðasta mánuði tíu ummæli í nafnlausum frásögnum um meint kynferðisbrot hans gegn konum, sem birtust á samskiptamiðlinum TikTok. Þá hefur Ingó einnig krafist bóta og afsökunarbeiðna frá sex einstaklingum sem ýmist tjáðu sig opinberlega eða fluttu fréttir af umfjöllun um meinta refsiverða háttsemi tónlistarmannsins.

Vilhjálmur hlutaðist til um kærurnar og kröfubréfin fyrir hönd Ingólfs en heimildir Fréttablaðsins herma að Ingólfur hyggist nú fela lögmannsstofu að annast umrædd mál fyrir sig.