Tabú, feminísk fötlunar­hreyfing, fór fram á það við alls­herjar- og mennta­mála­nefnd Al­þingis að Anna Kol­brún Árna­dóttir, þing­maður Mið­flokksins, viki af fundi nefndarinnar í morgun þar sem ræddar voru fyrir­hugaðar breytingar á al­mennum hegningar­lögum. 

Tabú var komin á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir um­sagnar hreyfingarinnar við laga­frum­varpið sem felur í sér breytingu á 233. gr. a. innan al­mennra hegningar­laga sem hefur af mörgum verið gagn­rýnt harð­lega. 

Farið var fram á að Anna Kol­brún myndi ekki sitja fundinn vegna þátt­töku hennar í sam­ræðum sex þing­manna á Klaustri bar síðla nóvember­mánaðar. 

„Í ljósi þeirrar stað­reyndar að einn nefndar­manna er Anna Kol­brún Árna­dóttir, þing­maður Mið­flokksins og einn ger­enda í Klausturs­málinu, fór Tabú fram á að hún viki af fundinum þegar full­trúar okkar kæmu fyrir nefndina. Var það gert vegna þess að Anna Kol­brún varð upp­vís að hatur­s­orð­ræðu gegn fötluðu fólki og öðrum jaðar­settum hópum, sagði ekki af sér í kjöl­farið og tók þátt í að kalla Báru Hall­dórs­dóttur fyrir héraðs­dóm Reykja­víkur,“ segir á vef Tabú. 

Páll Magnús­son, for­maður nefndarinnar, sagði í svari sínu til Tabú að fasta­nefndir Al­þingis væru þing­kjörnar og því hefðu hvorki nefndirnar sjálfar né for­menn þeirra neitt með það að gera hverjir þar sitja. 

„Við þetta getur Tabú ekki unað. Hér kemur í ljós hversu al­var­legt það er að Al­þingi hafi ekki axlað á­byrgð með af­dráttar­lausum hætti í Klausturs­málinu og að Klausturs­þing­menn hafi ekki sagt af sér þing­mennsku. Ekki er hægt ætlast til þess að þol­endur þessa of­beldis mæti ger­endum við þessar að­stæður,“ segir enn­fremur í yfir­lýsingu Tabú.