Sótt­varna­yfir­völd vonast til þess að hægt verði að bólu­setja ung­menni á aldrinum 12 til 15 ára á næstunni en nú styttist í að skólarnir hefjist fyrir haustið. Lyfja­stofnun Evrópu, EMA, sam­þykkti notkun bólu­efnis Pfizer fyrir þennan hóp í lok maí og í lok júlí bættist bólu­efni Moderna við.

Að­eins nokkrar vikur eru í að skólarnir hefjist en ljóst er að þessi hópur verði ekki full­bólu­settur fyrr en í októ­ber, ef á­ætlanir um bólu­setningar í lok ágúst ganga eftir, þar sem þrjár til fjórar vikur þurfa að líða milli skammta auk þess sem það tekur tvær vikur að ná fullri virkni eftir seinni skammt.

Mögulega alvarlegar aukaverkanir litu dagsins ljós

Að­spurð um af hverju bólu­setning hópsins hófst ekki fyrr, í ljósi þess að leyfið hafi legið fyrir í rúma tvo mánuði, segir Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir, stað­gengill sótt­varna­læknis, að á svipuðum tíma hafi komið fregnir um hjarta­bólgu og gollurs­húss­bólgu sem virtist al­gengara eftir mRNA bólu­setningu og al­gengara hjá yngri hópum.

„Á þeim tíma var ekki alveg ljóst hvort þetta væru al­var­leg veikindi eða væg, þetta eru alltaf ógn­vekjandi veikindi því það vill enginn sjá börnin sín með brjóst­verk og hjart­sláttar­truflanir og mæði, en þetta hefur síðan komið í ljós er yfir­leitt mjög vægt, þarf litla eða enga með­ferð, og flestir jafnar sig bara á til­tölu­lega stuttum tíma,“ sagði Kamilla á upp­lýsinga­fundi dagsins í svari sínu við fyrir­spurn Frétta­blaðsins.

Staðan breytt

Þá vísar Kamilla til þess að á sama tíma var minna um Co­vid á Ís­land og voru skólarnir að fara í sumar­frí, þannig að ekki var aug­ljós ástæða til að hætta á mögu­legar al­var­legar auka­verkanir. „Staðan er breytt,“ sagði Kamilla.

„Í fyrsta lagi vitum við núna að þetta er vægt, og í öðru lagi er Co­vid komið virki­lega af öllu afli til okkar, og þess vegna er mjög brýnt að fara í þetta,“ sagði Kamilla enn fremur. Þá vísaði hún til þess að það hafi verið talið brýnt að gefa skóla­starfs­fólki sem fékk bólu­efni Jans­sen örvunar­skammt og hófst það í vikunni.

„Eins og staðan er núna þá bara er ekki svig­rúm til að bólu­setja nema á­kveðið mikið fjölda á hverjum degi, við eigum nóg bólu­efnið er ekki vanda­málið,“ sagði Kamilla og vísaði til þess að bólu­setningar væru ekki í stórum stíl í Laugar­dals­höll að svo stöddu. „Þetta þarf bara að fá að ganga og vonandi gengur þetta vel og þá verður hægt að fara í bólu­setningu 12 til 15 ára bara mjög fljót­lega.“