Edna Lupita elti ástina frá Mexíkó til Íslands fyrir rúmum tveimur áratugum, heimsóknin átti að vera stutt en hér er hún enn ásamt þremur dætrum.

Edna er alin upp í Mexíkóborg og segir umhverfið að mörgu leyti hafa verið óöruggt. „Ég var hrædd við að búa þar enda var barnsfaðir minn myrtur þegar ég var nýorðin ólétt af dóttur okkar. Pabbi hafði sagt mér að ef ég yrði ólétt ógift myndi hann henda mér út. Eins höfðu fjölskyldumeðlimir varað mig við Dani, barnsföður mínum. Hann var „el malo“, en hann var svo sætur,“ rifjar Edna upp og hlær. Hún var auðvitað aðeins 19 ára og segist hafa verið viss um að með henni yrði hann betri maður. „Hann var í óreglu en við höfðum rætt það að hann vildi hætta en sjálf hef ég aldrei notað fíkniefni.“

„Hann var myrtur tólf árum áður en þáverandi forseti, Felipe Calderón, lýsti yfir stríði gegn fíkniefnainnflutningi. Ástandið var slæmt og margir í kringum mig myrtir,“ segir Edna, sem fannst hún óörugg í Mexíkó.

Edna strauk að heiman ólétt enda hafði faðir hennar lýst því yfir að hún fengi ekki að búa hjá þeim ógift með barn. „En hann fór að leita að mér, sem betur fer.“

Örlagarík afmælisveisla

Edna var því ein með dóttur sína Angie, sem fæddist árið 1994, en fékk stuðning frá foreldrum sínum og fór í háskólanám í leiklist og þýsku þegar Angie var átta mánaða gömul. Það var svo í afmælisveislu í Mexíkóborg árið 1997 sem örlögin tóku í taumana.

„Vinkona mín var að deita íslenskan mann sem hélt veislu vegna afmælis síns. Ég fór með enda hafði þess vinkona sagt að þar yrði svissneskur maður sem vildi hitta mig. Ég var að læra þýsku og var því spennt að spjalla við hann en hann hitti ég aldrei,“ það var aftur á móti íslenskur skiptinemi sem fangaði undir eins athygli hennar.

Edna segir hugræna atferlismeðferð hafa breytt lífi sínu en hún hefur lengi glímt við geðræn veikindi. Leiklistina vill hún jafnframt nota til hjálpar sér og öðrum sem glíma við slíkar áskoranir. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Þegar ég gekk inn í veisluna sá ég Pétur og hugsaði með mér að ég yrði alla vega að sofa hjá honum, enda minnti hann mig á Axl Rose,“ rifjar Edna upp í léttum tón. „Ég hugsaði með mér að þetta hlyti að vera Svisslendingurinn sem ég átti að hitta. Þetta var ekki hann en Pétur talaði smá þýsku svo við fórum að tala saman. Ég varð strax ástfangin af honum, en veit þó ekki með hann,“ segir hún og hlær.

Ástin virðist hafa verið endurgoldin, enda voru Edna og Pétur farin að búa saman eftir tvær vikur. „Það var ekki planað en bara gerðist. Ég var undir eins mjög skýr með að við værum tvær, ég og Angie, dóttir mín sem hann kynntist mánuði eftir að við hittumst. Þau náðu strax mjög vel saman, svo vel að þegar við Pétur skildum árið 2010 fann ég að hún var tengdari honum en mér. Hún er svolítið lokuð eins og Íslendingur þótt hún sé mexíkósk í hjarta. Hún er ólík yngri dætrum mínum sem eru opnari og tala mjög mikið.“

Frá Mexíkóborg í Vesturbæinn

Upphaflega ætlaði unga parið að búa í Mexíkóborg en árið 1998 fóru þau í það sem átti að vera heimsókn til Íslands og hér eru þau enn.

Dóttirin, Angie, varð upphaflega eftir í Mexíkó. „Ég vildi ekki taka hana frá foreldrum mínum og við vorum ekki viss um að Pétur væri í alvöru Pétur en ekki einhver glæpamaður. Þremur mánuðum síðar, þegar ég var sannfærð um að allt væri eins og það ætti að vera, fór ég að sækja hana. Allt í einu var allt lífið breytt,“ segir Edna, sem uppgötvaði fjórum dögum eftir að hún lenti á Íslandi að hún væri með barni. „Við ákváðum að stofna fjölskyldu hér og ég þurfti að kveðja fjölskyldu mína mjög brátt. Ég var með mikið samviskubit, mamma grét mikið og sökk í mikið þunglyndi eftir að við fórum.“ Edna bendir á að á þeim tíma hafi verið mun erfiðara að halda sambandi á milli landa. „Ég man að mig dreymdi um síma þar sem ég gæti séð þau þegar ég talaði við þau. Eins og eru til í dag.“

Edna kom hingað til lands í ágúst árið 1998, hún var þá 23 ára gömul og eldri dóttir þeirra Péturs, Ariedna, kom í heiminn í maí árið eftir.

„Það var eftir annað barnið sem ég upplifði fyrst alvarlegt þunglyndi. Ég var rúmföst og man eftir að hafa upplifað reiði gagnvart manninum mínum og tengdaforeldrum. Þau vildu leyfa mér að hvílast og létta undir með stelpurnar. Þær fóru þá að treysta meira á þau með allt. Ég er enn að berjast fyrir því að sýna þeim að ég geti gert ýmislegt en ég þarf líka að viðurkenna að ég get ekki hjálpað þeim með allt, eins og til að mynda skólamál og fjármál. Þá eru það frekar pabbi og amma og afi en það getur svo sem líka verið þægilegt,“ segir Edna og hlær.

Edna og Pétur skildu árið 2011 en það er augljóst á öllu hennar tali að þau eru enn mjög góðir vinir og uppeldi dætranna þriggja er á beggja ábyrgð.

Sjálfsvígshugsanir frá sex ára aldri

Aðspurð segist Edna fyrst muna eftir sjálfsvígshugsunum þegar hún var aðeins sex ára gömul en þær hafi orðið algengar seinna meir. Faðir Ednu var læknir og móðir hennar hjúkrunarfræðingur og þó hún segi föður hennar oft hafa haft það í flimtingum að hún væri geðhvarfasjúklingur, hafi lítið verið talað um geðheilsu.

„Það er í raun mjög skrítið að enginn hafi talað um þetta þegar ég var krakki því mamma var mjög þunglynd. Síðar veiktist hún af Alzheimer og lést fyrir tveimur árum eftir 15 ára erfið veikindi.“

Úr heimildarmyndinni Ekki einleikið, eða Acting out, sem sýnd er í Bíó Paradís.

Þunglyndið jókst og segist Edna hafa upplifað mikla þreytu og tilgangsleysi. Hún hafði kennt þolfimi og dans en hætti á meðgöngunni. „Ég fann fyrir að geta ekki lagt neitt af mörkum til samfélagsins. Ég held að það hafi haft mikil áhrif. Þegar barnið fæddist var ég bara mamma,“ lýsir Edna, sem upplifði félagslega einangrun.

„Ég vildi ekki senda barnið frá mér svo ég gerðist dagmamma til að vera með hana heima. Það var mjög erfitt að vera heima allan daginn og ég upplifði jafnframt reiði ofan í þunglyndið. Ég var aldrei að gera það sem ég vildi gera, sem var að dansa og leika. Ég festist inni í mínum eigin heimi. Upplifði mikla þreytu og þyngsli. Lífsstíllinn var í rusli og ég borðaði og svaf illa. Ég sem hef gaman af félagslífi forðaðist jafnframt mannfögnuði.“

Alltaf með grímuna uppi

Edna skráði sig í spænskunám við Háskóla Íslands en segir að sér hafi liðið illa meðan á náminu stóð enda þunglyndið svæsið. „Ég átti erfitt með að fela líðan mína en maður þorði ekki að láta á neinu bera. Í dag spyrja kennarar nemendur hvernig þeim líði en það tíðkaðist ekki á þessum tíma. Það var líka erfitt að kenna salsa á meðan ég var í miklu þunglyndi. Ég var alltaf með grímuna uppi.“

Hún segir líðan sína hafa leitt til þess að þau hjónin skildu árið 2011. „Ástin var alltaf til staðar en ástríðuna vantaði.“ Eftir skilnaðinn sökk hún þó enn lengra niður. „Við reyndum viku og viku með stelpurnar í upphafi. Það gekk vel á meðan þær voru hjá mér en þegar þær fóru var allt hræðilegt. Ég lá bara í gólfinu og fann fyrir óraunverulegum verum í kringum mig. Ég var farin að vinna í Kramhúsinu og fannst ég hafa hlutverk. En þegar ég kom heim fann ég fyrir miklum einmanaleika. Ég sá drauga og ofsjónir og átti erfitt með að skilja á milli.“

Edna leitaði til geðdeildar og fékk viðtöl einu sinni í mánuði, þó það hafi hjálpað dugði það ekki til. Eins fékk hún uppáskrifað þunglyndislyfið Sertral, sem hún telur hafa verið mistök, enda fékk hún nýja greiningu fyrir þremur árum síðan, geðhvörf, og við þeim eru gefin annars konar lyf.

Sjálfsvígstilraun

„Ég fann að ég var að veikjast, mér var alveg sama hvort ég lifði eða dó. Fannst dæturnar ekki þurfa á mér að halda og ég ekki vera nógu sterk fyrir þær. Þær voru lengi það eina sem ég lifði fyrir. Ég treysti mér ekki til að halda áfram. Fannst ég ekki góð manneskja, vildi bara hverfa.“ Edna gerði tilraun til sjálfsvígs, tók lyf en komst sem betur fer undir læknishendur í tæka tíð. „Ég man eftir að hafa verið ánægð með mig að hafa loks hugrekki til að reyna eitthvað. Ég hafði verið langt niðri en upplifði þarna maníu.“

Eins og fyrr segir höfðu sjálfsvígshugsanir lengi fylgt Ednu en hún segir þetta tilfelli þó hafa verið af hvatvísi. En í framhaldi af innlögn á geðdeild hafi hún fengið mjög góða meðferð í Hvíta bandinu.

Leikararnir Valur Freyr Einarsson og Sólveig Guðmundsdóttir ásamt Ednu.

„Þar lærði ég hugræna atferlismeðferð sem hjálpaði mér mjög mikið. Ég lærði tilfinninga- og streitustjórnun, samskiptafærni og núvitund. Þetta breytti algjörlega lífi mínu.“

Aukaverkanir vegna lyfs

Edna segist hafa upplifað miklar aukaverkanir við lyfi því sem hún fékk ávísað gegn geðhvörfum. „Ég fann hnúta í brjóstum og óttaðist að um krabbamein væri að ræða. Það var rannsakað og reyndist vera um stækkaða kirtla að ræða og komst ég að því að um þekkta aukaverkun lyfsins væri að ræða.

Ég var því ekki tilbúin að halda áfram á þeim lyfjum. Ég vildi frekar vinna með mína djöfla. Lyfjameðferð er að mínu mati plástur. Ég ákvað að hætta og hagnýta allt það sem mér hafði verið kennt. Skapsveiflur mínar mátti líka að mörgu leyti rekja til hormónabreytinga og vanvirks skjaldkirtils.“

Hún segist hafa náð að halda sér í ágætis jafnvægi, jafnvel í gegnum erfiða tíma, en foreldrar hennar féllu frá með árs millibili. „Ég trúi á óhefðbundnar lækningar og hef mikla trú á að heilbrigður lífsstíll hafi áhrif til góðs.“

„Frá því ég var á geðdeild hef ég fundið þörf fyrir að vinna með þessa leiklistaraðferð,“ segir Edna en megininntak heimildarmyndarinnar er að velta fyrir sér hvernig leiklist geti hjálpað fólki sem glímir við geðræna kvilla. „Ég vildi að það væri aðaláhersla myndarinnar og leitaði að fólki sem vildi vinna með þetta áfram.“

Geðveikt leikhús

Þær Ásthildur Kjartansdóttir og Anna Þóra Steinþórsdóttir framleiða og leikstýra myndinni sem nú er í sýningu í Bíó Paradís. „Upphaflega vildu þær gera mynd um leikhópinn Húmor,“ segir Edna, en áhugaleikhópurinn „Húmor“ lýsir sér sjálfur sem geðveiku leikhúsi fyrir alla. „En þær fengu ekki styrk til þess heldur til að gera mynd um líf mitt,“ segir Edna en leikhópurinn kemur töluvert við sögu í myndinni. „Ég er mjög þakklát fyrir það. Það var æðislegt að sjá myndina. Mér fannst lokaútkoman frábær.“

Edna leitaði til Hlutverkaseturs sem býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni og komast aftur út á vinnumarkaðinn.

Leikstjórarnir Anna Þóra Steinþórsdóttir og Ásthildur Kjartansdóttir.

„Þar fékk ég frábærar móttökur hjá Elínu Ebbu Ásmundsdóttur framkvæmdastjóra. Ég sagði henni að mig langaði að þróa aðferð. Hún sá að ég var bæði með leiklistarmenntun og lífsreynslu, ég væri „un loco professional“,“ segir hún og hlær.

„Ég vildi búa til leiklistaraðferð fyrir fólk með geðræna kvilla. Þetta var bara draumur, en þessi draumur er að rætast. Ég er viss um að leiklist getur hjálpað.“ Edna stofnaði Leikhópinn Húmor í samstarfi við fólk á Hlutverkasetri, og þar er hún í dag leikstjóri.

„Við erum enn að þróa okkar aðferðir en finnum að þetta hjálpar. Leiklistin er oft eins og margir tímar hjá sálfræðingi,“ segir Edna en í hópnum er alls konar fólk, með greiningar og ekki, jafnvel í afneitun eins og hún segir í myndinni. En þau eiga það sameiginlegt að vilja hjálpast að og finna styrk í samstöðunni. Edna vill leita fjölbreyttari leiða að geðheilsu og myndin fjallar um það. „Læknar vita kannski hvað er að en ekki endilega hvernig eigi að leysa það. Leikhúsið býður upp á möguleika í bataferlinu og þessi leiklistartækni byggir á þeirri hugmyndafræði.“

Þær Ásthildur Kjartansdóttir og Anna Þóra Steinþórsdóttir eru handritshöfundar, leikstjórar og framleiðendur heimildarmyndarinnar Ekki einleikið sem sýnd er í Bíó Paradís.