Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, greinir frá því að sér hafi verið boðið neðsta sætið á lista flokksins fyrir Alþingiskosningar. Hann hafnaði boðinu.
„Síðastliðið haust lýsti ég því yfir að ég gæfi kost á mér í oddvitasæti á einhverjum lista Viðreisnar á Suðvesturhorninu,“ skrifar Benedikt á Facebook. Vitnar hann því næst í orð sín úr framboðstilkynningu.
Segir Benedikt að fljótlega hafi verið ljóst að fleiri vildu sitja í efstu sætum en sætin hafi verið. „Ég taldi að í flokki sem legði áherslu á opið og gagnsætt ferli væri eðlilegast að efna til prófkjörs, þegar margir sæktust eftir að leiða lista. Ég lagði það til. Reykjavíkurráð flokksins valdi annan kost og uppstillingarnefnd valin. Hún hefur verið að störfum frá því í byrjun febrúar.“
Benedikt segir að Þorsteinn Pálsson, formaður uppstillingarnefndar, hafi boðið sér að hitta sig síðastliðinn þriðjudag. „Á fundi okkar sagði hann mér, að það væri einróma niðurstaða nefndarinnar að bjóða mér neðsta sæti listans. Af augljósum ástæðum afþakkaði ég það.“
Hann segir því ljóst að útséð sé um að hann verði í framboði fyrir Viðreisn. „En ég held áfram í pólitík og styð nú sem fyrr grunnstefnu Viðreisnar, enda hygg ég að ég hafi skrifað megnið af henni. Sjaldan hefur verið brýnni þörf fyrir einbeitta, frjálslynda rödd í samfélaginu og ég mun ekki láta mitt eftir liggja.“