Banda­rísk al­ríkis­yfir­völd segja mann sem þau hand­tóku síðast­liðinn föstu­dag hafa keyrt frá Col­or­ado ríki og til Was­hington DC með „feyki­legt magn“ af byssu­kúlum í síðustu viku. Hann hafi ætlað sér að myrða Nan­cy Pelosi, leið­toga Demó­krata í full­trúa­deildinni, í beinni út­sendingu.

Fram kemur í frétt Buzz­feed News að maðurinn, Grover Meredith Jr. hafi hins­vegar mætt of seint til D.C og því misst af á­rásinni á þing­húsið, þar sem fimm manns létust. Þess í stað tepptist hann í Ohio ríki þar sem hann þurfti að gera við ljósin á tengi­vagninum sínum, daginn fyrir á­rásina.

Daginn eftir, þann 6. janúar og sama dag og á­rásin átti sér stað, sendi Meredith smá­skila­boð til fé­laga síns. „Var að laga þau...er á leið til DC með feyki­legt magn af 5.6 bryn­húðuðum kúlum.“ Pelosi hefur ítrekað verið skotmark hægri öfgamanna og ítrekað fengið hótanir úr þeim kreðsum.

Sam­kvæmt al­ríkis­lög­reglunni hittu tveir full­trúar hennar Meredith á hóteli þar sem hann gisti þann 7. janúar. Þar virtist hann ekki hafa gefist upp á á­ætlunum sínum en þar viður­kenndi hann fyrir full­trúum að bíll hans væri fullur af byssu­kúlum.

Þá sýndi hann þeim jafn­framt smá­skila­boð til fé­laga síns þar sem hann upp­nefndi Pelosi og sagðist vera að í­huga að mæta til hennar þar sem hún myndi halda ræðu í beinni til að myrða hana. Þá hótaði hann því jafn­framt að keyra trukknum sínum inn í þing­hús Banda­ríkjanna og helst af öllu sagðist hann vilja keyra Pelosi niður.

Meredith var hand­tekinn í kjöl­farið. Fannst Glock 19 9 mm skamm­byssa í fórum hans, á­rásar­rifill og hundruð byssu­kúlna. Hann hefur áður tekið þátt í öðrum mót­mælum hægri öfga­manna og tók hann meðal annars þátt í mót­mælum fyrir utan heimili Brian Kemp, ríkis­stjóra Georgíu í nóvember síðast­liðnum, í kjöl­far í­trekaðra ó­sannaðra full­yrðinga Banda­ríkja­for­seta um kosninga­svindl.