Bandarísk alríkisyfirvöld segja mann sem þau handtóku síðastliðinn föstudag hafa keyrt frá Colorado ríki og til Washington DC með „feykilegt magn“ af byssukúlum í síðustu viku. Hann hafi ætlað sér að myrða Nancy Pelosi, leiðtoga Demókrata í fulltrúadeildinni, í beinni útsendingu.
Fram kemur í frétt Buzzfeed News að maðurinn, Grover Meredith Jr. hafi hinsvegar mætt of seint til D.C og því misst af árásinni á þinghúsið, þar sem fimm manns létust. Þess í stað tepptist hann í Ohio ríki þar sem hann þurfti að gera við ljósin á tengivagninum sínum, daginn fyrir árásina.
Daginn eftir, þann 6. janúar og sama dag og árásin átti sér stað, sendi Meredith smáskilaboð til félaga síns. „Var að laga þau...er á leið til DC með feykilegt magn af 5.6 brynhúðuðum kúlum.“ Pelosi hefur ítrekað verið skotmark hægri öfgamanna og ítrekað fengið hótanir úr þeim kreðsum.
Samkvæmt alríkislögreglunni hittu tveir fulltrúar hennar Meredith á hóteli þar sem hann gisti þann 7. janúar. Þar virtist hann ekki hafa gefist upp á áætlunum sínum en þar viðurkenndi hann fyrir fulltrúum að bíll hans væri fullur af byssukúlum.
Þá sýndi hann þeim jafnframt smáskilaboð til félaga síns þar sem hann uppnefndi Pelosi og sagðist vera að íhuga að mæta til hennar þar sem hún myndi halda ræðu í beinni til að myrða hana. Þá hótaði hann því jafnframt að keyra trukknum sínum inn í þinghús Bandaríkjanna og helst af öllu sagðist hann vilja keyra Pelosi niður.
Meredith var handtekinn í kjölfarið. Fannst Glock 19 9 mm skammbyssa í fórum hans, árásarrifill og hundruð byssukúlna. Hann hefur áður tekið þátt í öðrum mótmælum hægri öfgamanna og tók hann meðal annars þátt í mótmælum fyrir utan heimili Brian Kemp, ríkisstjóra Georgíu í nóvember síðastliðnum, í kjölfar ítrekaðra ósannaðra fullyrðinga Bandaríkjaforseta um kosningasvindl.