Tak­mörkun á að­gengi barna undir tólf ára að gos­stöðvunum í Mera­dölum var byggð á til þess að vernda börn gegn lífs­hættu við erfiðar að­stæður. Segir hann for­eldra hafa hunsað við­varanir við­bragðs­aðila.

Þetta segir Úlfar Lúð­víks­son, lög­reglu­stjóri á Suður­nesjum, í svari til um­boðs­manns Al­þingis sem spurði lög­reglu­stjórann um það á hvaða grund­velli þessari tak­mörkun var beitt.

„Frá upp­hafi gossins hafa við­bragðs­aðilar haft uppi efa­semdir um að rétt væri að hleypa for­eldrum með ung börn sín inn að gos­stöðvunum þar sem um langa og tor­sótta leið væri að fara og engan veginn hægt að tryggja loft­gæði nærri eld­stöðvunum og þar með öryggi barna,“ segir í bréfi lög­reglu­stjórans sem kveðst hafa horft til frá­sagna og reynslu við­bragðs­aðila við störf á gossvæðinu á fyrstu dögum gossins.

„Mikið á­hyggju­efni voru tíð af­skipti þeirra af for­eldrum með ung börn sín er for­eldrar sýndu kurteis­legum af­skiptum við­bragðs­aðila oft lítinn skilning og hundsuðu jafn­vel leið­beiningar sem þeim voru gefnar. Vakti at­hygli að fjöl­skyldur voru oft engan vegin í stakk búnar til að ganga upp að gosinu. Í flestum til­fellum var um að ræða er­lenda ferða­menn,“ segir lög­reglu­stjórinn.

Mikið á­hyggju­efni voru tíð af­skipti þeirra af for­eldrum með ung börn sín er for­eldrar sýndu kurteis­legum af­skiptum við­bragðs­aðila oft lítinn skilning og hundsuðu jafn­vel leið­beiningar sem þeim voru gefnar.

Minna þol hjá börnum

Kemur fram í bréfinu að frétta­flutningur, ljós­myndir, mynd­skeið og frá­sagnir reyndra ís­lenskra leið­sögu­manna um erfiðar og lífs­hættu­legar að­stæður barna á hættu­svæði hafi vakið at­hygli lög­reglu­stjórans á á­standi sem þurft hafi að bregðast tafar­laust við. Segir hann börn hafa minna þol gagn­vart loft­mengun og kveðst hafa lagt sjónar­mið land­læknis til grund­vallar.

„Lög­reglu­stjóri hefur það vanda­sama starf með höndum að tryggja öryggi al­mennings í al­manna­varn­á­standa. Hafi hann heimild lögum sam­kvæmt til að vísa á brott eða fjar­lægja fólk í hættu­á­standi þá gerir lög­reglu­stjóri ráð fyrir því að lög­gjafar­vilji standi jafn­framt til þess að hann beiti vægar og mildara úr­ræði á hættu­stund með þeim hætti að sem gert var með hags­muni barna að leiðar­ljósi, varnar­lausum börnum, sem geta ekki ekki annað en fylgt á­kvörðunum for­eldra sinna,“ segir Úlfar Lúð­víks­son í bréfi sínu.

Fram kemur á vef­síðu um­boðs­manns Al­þingis að hann meti nú fram­hald málsins að fengnum skýringum lög­reglu­stjórans.