„Stundum verður maður að taka málin í sínar hendur,“ segir lög­fræðingurinn Linda Fann­ey Val­geirs­dóttir, sem dró ein­sömul lamb út úr kind í sauð­burði að­fara­nótt mánu­dags. Hún starfar ein­mitt hjá at­vinnu­vega- og ný­sköpunar­ráðu­neytinu á skrif­stofu sem fer með mál­efni dýra­vel­ferðar og dýra­heil­brigðis.

Linda fór með eigin­manni sínum og tveimur dætrum norður í Skaga­fjörðinn, en þar er bærinn Vatn þar sem for­eldrar hennar búa og hún sjálf ólst upp. Í sauð­burði þarf margar hendur í sveitirnar sem hefur ekki reynst auð­velt í far­aldrinum. „Við vorum búin að velta þessu mikið fyrir okkur og á­kváðum loks að fara til að gera gagn. En fórum í sýna­töku áður til þess að tryggja að við værum ekki að bera veiruna í fjörðinn fagra,“ segir Linda.

Þegar Linda mætti á nætur­vakt þessa um­ræddu nótt var ein kindin þegar borin. „Ég færði hana í stíu og vissi að hún væri að fara að bera öðru lambi þar sem hún var rauð­merkt,“ segir Linda. Lömbin í kindunum eru talin fyrir­fram og þær merktar með á­kveðnu lita­kóðunar­kerfi.

Linda beið og beið en ekkert bólaði á seinna lambinu. „Ég hugsaði vel hvað ég ætti að gera. Ég hef oft verið með þegar lömbin eru dregin út en það er erfitt að gera þetta ein,“ segir hún. „Mér var svo mikið í mun að vekja engan, sér­stak­lega ekki móður mína sem þurfti að standa vaktina daginn eftir, að ég á­kvað að gera þetta sjálf.“

Setti Linda því upp hanskann, smurði gelinu á og sótti lambið inn í kindina. Að­spurð segist Linda Fann­ey hafa haft nokkuð góða hug­mynd um hvað hún væri að gera. „Það veitti mér samt eitt­hvað að geta gert þetta án þess að þurfa að kalla á að­stoð,“ segir hún. „Kindin var góð og leyfði mér að gera þetta og lambið kom við góða heilsu út.“

Þegar vaktinni lauk gekk Linda inn í bæ og gekk til náða, nokkuð roggin og á­nægð með sig. „Nokkrum tímum seinna vaknaði ég við hlátra­sköll niðri í eld­húsi. Þá komst ég að því að rauð­merktar voru með þrjú lömb,“ segir Linda og hlær að þessari upp­á­komu. Kindin hafði hins vegar borið seinasta lambinu ó­studd og heilsaðist því einnig vel.

Eftir þetta var á­kveðið að gefa hinni þrílembdu kind nafnið Linda, í höfuðið á ljós­móður sinni. Að­spurð um hvort hún sjái fyrir sér að skipta um starfs­vett­vang og gerast dýra­læknir segir hún svo ekki vera. „Ég held að ég haldi mig við lög­fræðina.“