Hákon Örn Bergmann, einn þriggja sem ákærðir eru í Skáksambandsmálinu svokallaða, segist ekki hafa vitað hvað væri í sendingu sem Sigurður Ragnar Kristinsson sendi til Íslands frá Spáni. Aðalmeðferð í málinu fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hákon neitaði sök í málinu og sagðist ekki hafa haft neinn þátt í að kaupa eða senda fíkniefni til Íslands. 

„Björgunarhringur“ á leið til Íslands frá Spáni

Hákon Örn sagði fyrir dómi að samband hans og Sigurðar Ragnars ætti sér langa sögu. Sagði hann Sigurð í gegnum tíðina hafa verið vel stæðan, en sumarið 2017 hefði hann lent í lausafjársvandræðum og hann sjálfur lánað Sigurði peninga. 

Sjá einnig: Sigurður tjáir sig ekki

Í desember hafi Hákoni farið að vanta peningana til baka, en þá var Sigurður Ragnar fluttur til Spánar ásamt þáverandi eiginkonu sinni, Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, og dóttur þeirra. Kvaðst Hákon Örn hafa verið að fjármagna gerð kvikmyndar sem fór langt fram úr fjárhagsáætlun.

Sagði Hákon Sigurð á þeim tíma hafa farið að tala um að „björgunarhringur“ væri í leið frá Spáni og beðið sig um að fjárfesta í nýju símanúmeri og svo hafa kveikt á símanum yfir jólin. Þeir hafi verið í nokkuð reglulegum samskiptum í desember, símleiðis, á Facebook og rættu í eitt skipti saman á Skype. 

Símanúmerið, sem Hákon fjárfesti í, var svo skráð á umrædda sendingu frá DHL sem innihélt rúmlega fimm kíló af amfetamíni sem stílað var á Skáksamband Íslands. Sagðist Hákon ekki hafa áttað sig almennilega á því hvað væri í pakkanum og taldi í fyrstu að um væri að ræða peningasendingu frá Sigurði vegna endurgreiðslu á láninu. 

Sama dag og sendingin var send frá Spáni til Íslands ræddu þeir Hákon og Sigurður saman á Skype. Fyrir dómi sagðist Hákon ekki hafa tengst sendingunni á neinn hátt, heldur hefðu þeir eingöngu rætt „lífið og tilveruna.“ 

Segir að tvær grímur hafi runnið á sig

Aðspurður segist Hákon ekki hafa vitað hvers vegna Sigurður Ragnar hafi beðið sig um að kaupa nýtt símanúmer. Segist hann hafa talið í fyrstu að í sendingunni væru peningar, nánar tiltekið peningar til þess að greiða umrædda skuld Sigurðar. „Ég hafði enga ástæðu til þess að treysta honum ekki,“ sagði Hákon. Í tölvu Hákonar fundust staðfestingar á sendingunni á spænsku. Við rannsókn málsins fundust nokkrar greiðslur frá Hákonu til Sigurðar Ragnars á þessum tíma. En segir Hákon greiðslurnar hafa snúð að umræddri skuld Sigurðar, en kvaðst hann hafa talið að með því að liðka fyrir fjárhag Sigurðar gæti hann fengið lán til að greiða niður skuld til sín. 

„Á þessum tíma, geri ráð fyrir að það hafi verið eftir áramót, þá voru komnar tvær grímur á mig varðandi þessa sendingu,“ sagði Hákon. Sagði hann Sigurð Ragnar hafa sagt við sig að það væri ekki sniðugt fyrir hann sjálfan að taka á móti sendingunni. „Ég var kominn í eitthvað sem ég vildi ekki taka þátt í.“ Hann hafi þó verið undir svo miklu álagi á þessum tíma að hann hafi ekki velt því nánar fyrir sér. 

Hákon sagðist í hafa í kjölfarið fengið Jóhann Axel Viðarsson til þess að sækja pakkann til DHL og greiða tollinn. Jóhann Axel hafi skuldað sér þrjú hundruð þúsund og sagði að skuldin yrði niðurfelld ef Jóhann færi að sækja pakkann, en skuldin var tilkomin vegna fíkniefna. 

Kastaði símanum út um gluggann og fór á fund

Jóhann Axel fór í kjölfarið og sótti sendinguna. Sagðist Hákon hafa greitt honum fimmtíu þúsund fyrir að sækja sendinguna og peningarnar hafi komið úr eigin vasa, en ekki Sigurðar. Fylgdist hann með Jóhanni sækja sendinguna úr fjarlægð, en er hann var handtekinn keyrði hann sjálfur á brott og kastað fyrrnefndum síma út um gluggann. „Þarna var augljóst að þarna var eitthvað sem var ekki í lagi og þetta voru bara fyrstu viðbrögð.“ Aðspurður sagði Hákon að þriðji aðili hafa komið við sögu í samskiptum þeirra Sigurðar en ítrekar að hann hafi aldrei vitað hver átti að taka á móti pakkanum.