Landsréttur hefur úrskurðað karlmann, hælisleitanda hér á landi, í gæsluvarðhald til 9. ágúst fyrir margvísleg brot, meðal annars fyrir að hafa hótað lögreglumanni lífláti með því að ætla að taka af honum höfuðið. Hann er einnig sagður hafa sagt við lögreglumenn að hann hafi alltaf langað til þess að drepa kristna manneskju „og þegar það yrði þá ætlaði hann að skera höfuð hennar af og drekka blóðið úr henni því til fögnuðar“.

Maðurinn er þá sakaður um ýmis brot; fjögur þjófnaðarbrot, tvær líkamsárásir, hótanir og valdstjórnarbrot. Eitt þjófnaðarbrotið fólst í tilraun til að stela fatnaði í verslun Herragarðsins í Smáralind að verðmæti um 130 þúsund króna.

Þá er maðurinn sakaður um að hafa hótað starfsmönnunum, er gómuðu hann við þjófnaðinn, lífláti og var hann síðan handtekinn af lögreglu. Í bílferðinni á lögreglustöðina hafði maðurinn í nokkuð óhugnanlegum hótunum við lögreglumennina.

Alltaf langað að drepa kristinn mann

Þannig sagðist maðurinn ætla að myrða einn lögreglumanninn með því að taka af honum höfuðið. „Á leið á lögreglustöðina sagði kærði að honum hafi alltaf langað til þess að drepa kristna manneskju og þegar það yrði þá ætlaði hann að skera höfuð hennar af og drekka blóðið úr henni því til fögnuðar og beindi þeim orðum til lögreglumannsins að hann gæti orðið fyrir valinu hjá honum,“ segir í dómnum.

Maðurinn er þá einnig sakaður um að hafa ráðist á konu í Keiluhöllinni um mánuði síðar. Hann sló þá konuna með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að hún nefbrotnaði, hlaut mar á hnéð og yfirborðsáverka á höfði. Þá hótaði hann lögreglumönnum aftur lífláti þegar hann var handtekinn í það skiptið.

Landsréttur féllst því á gæsluvarðhald yfir manninum og felldi þannig fyrri úrskurð héraðsdóms í málinu sem hafnaði kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhaldið.