Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, lagði fram ósk á samningafundi með Eflingu þann 3. október síðastliðinn að fulltrúi Samtaka atvinnulífsins (SA) yrði viðstaddur viðræðurnar. Þetta kemur fram í erindi sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi Hörpu, ríkissáttasemjara og borgarstjóra fjórum dögum síðar.

Í opnu bréfi sem Sólveig Anna skrifaði Degi B. Eggertssyni borgarstjóra síðastliðinn mánudag er vísað í umrætt erindi. Í bréfinu tilkynnti Sólveig Anna að hér eftir myndi samninganefnd Eflingar ekki eiga frekari fundi eða viðræður við samninganefnd borgarinnar að undanskildum fundum sem ríkissáttasemjari kunni að krefjast.

Sagðist hún telja rétt og skynsamlegt að viðræðurnar færu eftirleiðis fram fyrir opnum tjöldum og óskaði hún aðkomu borgarstjóra. Samninganefnd Eflingar hefur boðað borgarstjóra á opinn samningafund í Iðnó klukkan 13 í dag.

Í erindinu frá því í október gerði Sólveig Anna athugasemdir við það að SA væri blandað inn í viðræðurnar. Samkvæmt erindinu ræddi formaður samninganefndar borgarinnar þá hættu að kröfur Eflingar um styttingu vinnuvikunnar gætu leitt til forsendubrests lífskjarasamningsins.

Þá segir að Harpa hafi sagt á samningafundinum að SA „fylgdust grannt með“ viðræðunum. Formaður Eflingar áréttar að ekkert í lífskjarasamningi Eflingar og SA hafi bundið Eflingu gagnvart borginni þegar kemur að styttingu vinnuvikunnar.

Sólveig Anna lýsti einnig undrun á þeirri ósk að fulltrúi SA yrði viðstaddur viðræðurnar. Í kjölfar umræðu um þetta atriði hafi formaður samninganefndar borgarinnar sagst vera á leið á fund með framkvæmdastjóra SA seinna sama dag.

„Skilja má þessi orð sem svo að formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar eigi í samskiptum við aðila sem eiga ekki aðilda að samningaviðræðum um það sem fer fram í viðræðum,“ segir í erindi Sólveigar Önnu. Slíkt gangi gegn ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur.

Samkvæmt upplýsingum frá Eflingu bárust ekki svör, mótmæli eða athugasemdir við þessu erindi.

Í bréfinu til borgarstjóra frá því á mánudag var einnig vísað í erindi Eflingar frá því 21. júní. Þar segir að formaður samninganefndar borgarinnar hafi lýst því yfir á samningafundi þann 12. júní að tilraunaverkefni borgarinnar um styttingu vinnuvikunnar væri ekki til umræðu í viðræðunum.

Var þeirri spurningu beint til borgarstjóra hvort það væri rétt að samninganefndin hefði ekki umboð til að ræða málið. Í svari borgarstjóra sama dag segir að stytting vinnuvikunnar sé svo sannarlega til umræðu við samningaborðið. Vísað var í góðan árangur verkefnisins, sem lauk um síðustu áramót, og ekkert væri því að vanbúnaði að ræða það við samningaborðið.

Þess má geta að Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, gegndi starfi forstöðumanns kjaramálasviðs Eflingar í 15 ár. Hún hætti störfum hjá Eflingu eftir að Sólveig Anna var kjörin formaður.

Atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir starfsmanna Eflingar hjá borginni hófst í gær og stendur fram á sunnudag. Verði tillaga um verkföll samþykkt verður fyrsta vinnustöðvunin þriðjudaginn 4. febrúar næstkomandi.