Tinna Aðalbjörnsdóttir segir frá því í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins hvernig hún missti allt í hendur stjórnlausar fíknar en segir stóru eftirsjána liggja í því að hafa ekki sagt fyrr frá kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir á barnsaldri. Ef hún hefði sagt frá leyndarmálunum hefði ævi hennar mögulega orðið öðruvísi.

Tinna segist nú oft hugsa til tækifæris sem hún fékk þegar hún var 18 ára. Tækifæris til að segja heilbrigðisstarfsfólki frá leyndarmálum sem hún hafði burðast með og áttu eftir að hafa áhrif á allt hennar líf.

Tinna upplifði þá óhugnanlegu tilfinningu að missa allan mátt í fótum, oftar en einu sinni.

„Ég var í rannsóknum í lengri tíma enda lamaðist ég alltaf öðru hvoru í öðrum fætinum eða báðum og stundum leiddi þetta líka fram í handleggi. Eftir langvarandi rannsóknir á Landspítala og Grensásdeild var tekinn úr mér mænuvökvi til rannsóknar. Í ljós komu bólgnir taugaendar sem þrýstu á mænuna.“

Það er fundur með teymi lækna sem móðir Tinnu sat einnig, sem er henni sérlega minnisstæður.

„Læknarnir spurðu okkur hvort ég hefði lent í einhvers konar áfalli,“ segir Tinna og útskýrir að læknarnir hafi tengt einkenni veikindana við mögulegt áfall. „Taugaáfall getur leitt til alls konar líkamlegs ástands. Svar mitt var nei en mamma sagði þeim frá skilnaðinum. Ég þorði ekkert að segja frá hinum áföllunum. Ég hef oft hugsað út í það ef ég hefði sagt frá leyndarmálunum mínum þarna hefði ævi mín mögulega orðið öðruvísi.“

Tinna segist ekki hafa viljað horfast í augu við það sem henti hana bæði á barns- og unglingsaldri.

„Þegar ég er lítil stelpa varð ég í nokkur skipti fyrir misnotkun af hendi góðs vinar fjölskyldunnar. Svo þegar ég er unglingur er mér nauðgað. Bæði þegar ég var 13 ára og 16 ára.“

Undanfarin ár hefur Tinna aftur á móti verið í ýmis konar sjálfs- og áfallavinnu og segir þá sérfræðinga sem hún hafi leitað til vera á sama máli, að framhaldið hefði verið annað ef hún hefði fengið aðstoð við að vinna úr áföllunum fyrr.

„Þeir sem ég hef leitað til segja allir að ég hafi þróað alkóhólisma út frá áfallasögu. Sjálf er ég sannfærð um það því ég átti svo marga spretti í lífinu þar sem ég var ekki svona alkóhólísk.“