Vil­borg Arna Gissurar­dóttir, pól­fari, opnar sig um of­beldi sem hún varð fyrir af hendi þekkts fjalla­leið­sögu­manns í opinni færslu sem hún birti á Face­book-síðu sinni.

„Heimilis­of­beldi og hvers kyns of­beldi í öllum sínum birtingar­myndum er þungt farg að bera fyrir þol­endur slíkra mála, fjöl­skyldur og alla þá sem tengjast á einn eða annan hátt. Eins og margir vita nú þegar tengist of­beldis­mál sem er nú til um­fjöllunar í fjöl­miðlum mér og er ég ein af þeim konum sem um ræðir,“ skrifar hún.

Þá segist Vil­borg styðja frá­sögn konu sem sagði frá upp­lifun sinni af heimilis­of­beldi sem hún lenti í frá sama manni á Face­book-hópnum Fjalla­stelpur í gær og segist jafn­framt hafa staðið í sömu sporum og hún. Í kjöl­far á­sakananna hefur hvert fyrir­tækið af fætur öðru slitið sam­starfi við manninn sem um ræðir.

„Svona lífs­reynsla markar mann fyrir lífs­tíð og skilur eftir ör á sálinni. Með að­stoð góðs fólks og tímanum grynnka örin þó þau hverfi kannski aldrei alveg. Minn bak­poki er ansi þungur eftir lífs­reynslu síðustu ára og hefur markað mig á ýmsan hátt þó ég beri það ekki utan á mér. Eins hefur þetta haft af­leiðingar sem hefur tekið tíma að vinna úr og sú vinna heldur auð­vitað á­fram,“ skrifar Vil­borg.

Vil­borg segist hafa staðið í sömu sporum og konan sem greindi fyrst frá málinu bæði meðan á sam­bandi hennar og mannsins stóð og á sam­starfs­vett­vangi. Þá segir hún þol­endur og ger­endur ekki vera steyptir í eitt fast mót.

„Það erum við sem sam­fé­lag að læra betur og betur. Það skiptir máli að standa saman og um­vefja þol­endur á­samt því að úr­lausnir séu til staðar fyrir ger­endur. Fyrir mig per­sónu­lega hefur sú vakning sem hefur átt sér stað að undan­förnu skipt miklu máli og það er mikil­vægt að við höldum á­fram á þeirri braut. Ég mun leggja mitt á vogar­skálarnar þegar kemur að þeirri um­ræðu,“ skrifar Vil­borg.