Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu hefur sent beiðni til ríkisstjórnarinnar að fjöldatakmarkanir í stærri matvöruverslunum verði rýmkaðar í 200 manns fram að jólum. Samkvæmt gildandi reglugerð heilbrigðisráðherra sem tók gildi þann 10. desember síðastliðinn mega að hámarki 100 manns vera inni í stórum verslunum.
Andrés var gestur Morgunútvarps Rásar 2 í morgun en þar sagðist hann hafa áhyggjur af fjöldatakmörkunum í matvöruverslunum fyrir jólin, mikið álag verði á verslunum næstu daga.

„Þegar við erum með 100 manna fjöldatakmarkanir inni í stærstu matvöruverslununum er það ávísun á biðraðir og því sem því fylgir fyrir utan verslanirnar. Nánast allir landsmenn fara í matvöruverslanir með einhverjum hætti síðustu dagana fyrir jól til að sækja ferskvöru," segir Andrés.
Samtök verslunar og þjónustu hafa beint þessu til stjórnvalda síðustu daga og vænta svars í dag, en að sögn Andrésar er þetta á borði ríkisstjórnarinnar.
„Það sem við höfum bent á er að í þessari þriðju bylgju faraldursins er ekki vitað um eitt einasta dæmi að smit hafi komið upp í verslun. Það er meiri smithætta í þéttum biðröðum fyrir utan verslanir heldur en í stórum og vel loftræstum verslunarrýmum. Það hefur enginn hrakið þau rök sérstaklega."
Hann bætir við að ef skoðuð er tölfræði frá síðustu árum þá sé aukning í desember alltaf mikil og lygileg aukning sé dagana sem framundan eru.
„Við teljum að áhættan varðandi smit og smithættur í verslunum séu hverfandi. Rýmkanir myndu létta á álaginu á verslunum þessa síðustu daga fyrir jól. Það þarf að taka tillit til veruleikans," segir Andrés að lokum.