Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur verið beðinn að skýra fyrir umboðsmanni Alþingis á hverju hann byggi ákvörðun um að meina yngri en tólf ára för að gosstöðvunum í Meradölum.

„Þess er óskað að lögreglustjóri skýri nánar á hvaða lagagrundvelli umrædd ákvörðun er reist og veiti jafnframt upplýsingar um það hvaða gögn, upplýsingar eða röksemdir hafi legið til grundvallar því mati lögreglustjóra að takmarka aðgengi barna yngri en tólf ára að svæðinu,“ segir meðal annars í bréfi umboðsmanns Alþingis þar sem Úlfari Lúðvíkssyni lögreglustjóra er gefinn viku frestur til að svara.