For­dæma­lausir þurrkar hafa orðið til þess að vatnið í hinum mikil­feng­legu Viktoríu­fossum í Zam­bíu og Zimba­bwe hefur minnkað sem aldrei fyrr. Myndir af berum steinum þar sem áður var fossandi vatn hafa farið eins og eldur um sinu á Inter­netinu og óttast nú margir að ham­fara­hlýnun komi til með að gera út af við fossana.

„Á árum áður þegar það hafa verið þurrkar hafa þeir ekki verið svo um­fangs­miklir,“ segir Dominic Nyam­be, eig­andi hand­verks­búðar hjá fossunum, í sam­tali við The Guar­dian. „Þetta er í fyrsta skipti sem við upp­lifum þetta svona.“

Hann bendir á að þegar svo lítið vatn sé í fossunum hafi það á­hrif á ferða­manna­strauminn. Mun færri leggja leið sína að fossunum um þessar mundir en áður.

Í dag streymir nánast ekkert vatn niður þessa kletta.
Fréttablaðið/Getty

Nánast ó­þekkjan­legt svæði


Opin­berir starfs­menn taka í sama streng og segja að þrátt fyrir að eðli­legt sé að vatn minnki í fossunum á þurrka­tímum hafi árið í ár verið það versta í heila öld. Á­hrifin teygi sig marga kíló­metrar yfir náttúru­undrið þar sem ekkert sést nema þurrt berg. Þar sem vatn flæðir enn er það mun minna en venju­lega.