Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, og Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hafa breytt tillögu sinni um að vísa eigi Braggamálinu til héraðssaksóknara. Þær vilja að embætti borgarlögmanns verði falið að vísa málinu til „þar til bærra yfirvalda”. Þetta kom fram í máli Vigdísar á borgarstjórnarfundi í dag.

„Við vildum víkka þessa tillögu út til þess að hún myndi skírskota til frekari umræðu og samþykktar,” sagði Vigdís. Í fyrri tillögu var lagt til að skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100, eða Braggamálið, yrði vísað til héraðssaksóknara til frekari yfirferðar og rannsóknar. Nýja tillagan hljóðar nú svo:

Borgarstjórn samþykkir að fela embætti borgarlögmanns að vísa skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkur sem ber heitið Nauthólsvegur 100 til þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar. Jafnframt verði sama embætti falið að senda niðurstöður Borgarskjalasafns á skjalamálum í sama máli áfram þegar að þær liggja fyrir.

Horfa má á fundinn í beinni útsendingu hér.