Skipstjóri flutningaskipsins Hagland Captain, sem varð vélvana úti fyrir ströndum Noregs í aftakaveðri á laugardaginn segir áhöfn skipsins hafa haldið ró sinni þrátt fyrir að staðan hafi verið alvarleg. Ekki sást út um glugga skipsins fyrir öldugangi og fór allt rafmagn af skipinu um tíma. Skemmtiferðarskipið Viking Sky komst í hann krappann skömmu frá Hagland Captain í sama veðri. Nils Kristiansen, skipstjóri flutningaskipsins, lýsti þeim hremmingum sem hann og áhöfn hans lentu í við norska dagblaðið Verdens Gang.

Margra metra háar öldur

„Það var aftakaveður og sjórinn var úfinn, en ekki svo úfinn að það væri einhver ástæða til þess að virkja neyðaráætlun,“ sagði skipstjórinn um upphaf vandræðanna. Skipið var á leið sinni hjá Hustadvika í Noregi á laugardagskvöldið en Kristiansen sjálfur hefur áratuga reynslu á sjómennsku, hefur verið skipstjóri flutningaskipsins frá árinu 2012 og siglt skipinu ótal sinnum á sömu slóðum. Eitthvað fór þó úrskeiðis á laugardaginn lýsir Kristiansen sem segir áhöfn skipsins hafa fylgst með hvernig sífellt bættist í ölduganginn. 

Ein „aldan var risastór. Ég veit ekki hversu margir metrar, en þeir voru margir. Við sáum bara sjóinn út um gluggana,“ lýsir skipstjórinn sem segir áhöfnina hafa verið saman komna í skipstjórnarklefanum og fylgst með ölduganginum færast í aukana. „Þetta var ótrúlega öfgakennt.“

Hröð atburðarás

Stuttu fyrir klukkan sjö á laugardagskvöldið byrjaði sjór að flæða inn í skipið , sem var að flytja mikið magn timburs um helgina. Þá fór allt rafmagn fór af skipinu og í fyrsta skipti missti Kristiansen algjöra stjórn á skipi í sinni stjórn. 

„Það gerðist allt svo hratt. Stuttu síðar fengum við aftur rafmagn en á sama tíma börðu öldurnar skipið.“ Kristiansen kveðst hafa áttað sig hratt á því að ástandið væri alvarlegt og stuttu eftir sjö sendi hann út neyðarkall. Skömmu eftir að skipstjórinn sendi út neyðarkall flaug björgunarþyrla á leið sinni að Viking Sky skemmtiferðarskipinu, yfir flutningaskipið. Áhöfnin reyndi árangurslaust að kasta akkerum, en náði ekki að festa bátinn. Skipið flaut stjórnlaust áfram. 

„Þetta var alvarlegt, en við náðum að halda stjórn. Á þeim tíma frá því við sendum út neyðarviðvörun og þar til við ákváðum að yfirgefa skipið höfðum við náð að undirbúa okkur andlega fyrir það sem koma skyldi. Það var engin leið út og þú hefur engan möguleika nema treysta á þá sem ætla að koma að bjarga þér.“ 

Að lokum kom björgunarþyrla á vettvang og skipstjórinn og átta skipsverjar söfnuðust svo saman á þilfari skipsins. Þaðan stökk svo áhöfnin í ólgandi hafið, einn í einu. „Þú hugsar ekki mikið þá og þegar. En það var kalt og blautt,“ sagði Kristianssen en að lokum komust allir heilir á húfi á fast land. Hafin hefur verið rann­sókn á vél­ar­bil­un flutn­inga­skips­ins Hag­land Captain.