Viking Sky, skemmtiferðaskiptið sem lenti í hremmingum við strendur Noregs þegar það varð vélarvana í stórviðri í gær, siglir nú fyrir eigin afli og án aðstoðar dráttarbáta. Búist er við að skipið komi til hafnar í norska bænum Molde milli klukkan 16 og 17 í dag, segir á vef NRK.

Í gærkvöld og í nótt voru björgunarþyrlur notaðar til að hífa fólk af skipinu, enda sumir slasaðir eftir ringulreiðina í skipinu. Aðgerðirnar gengu hægt en þó tókst að koma um 400 farþegum af skipinu á meðan aðgerðum stóð, en þeim var hætt í morgun. Alls voru 1.400 manns á skipinu, og því enn um 1000 manns um borð. Af samfélagsmiðlum að dæma virðist þó sem að hið versta hafi gengið yfir og nú sé skipið komið á lygnari sjó.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að skipið nálgaðist óðum strendur Noregs, en ferðin hefur þó gengið hægt fram að þessu. Í gærkvöld tókst að koma þremur  af fimm vélum skipsins í gang, en samt sem áður þurfti á aðstoð dráttarbáta til að koma skipinu áfram.

Síðdegis í gær drapst á vélum skipsins og mátti minnstu muna að ekki færi verr, en það munaði aðeins um 100 metrum að skipið myndi sigla í strand. Farþegar á skipinu hafa deilt myndum og myndböndum, ásamt frásögnum, á samfélagsmiðlum. Var t.a.m. birt myndband af skipinu veltast í ólgusjó og lausamunir runnu til og frá í skipinu.

Þá greinir Bandaríkjamaðurinn Rodney Horgen frá því í viðtali við NRK að hann hafi skyndilega fundið fyrir miklum veltingi er hann sat á veitingastað skipsins. Hann lýsir því hvernig fólk hafi dottið um koll og borðbúnaður runnið út á gólf, og vatn komist inn í skipið og rifið með sér fólk og borðbúnað. Segir hann að atvikið hafi minnt óþægilega á örlagaríka jómfrúarferð skemmtiferðaskipsins Titanic, sem fjallað er um í samnefndri kvikmynd.