Búið er að bjarga tæplega 400 manns úr norska skemmtiferðaskipinu Viking Sky, sem var vélarvana í stórsjó við strendur Noregs í gær. Skipið nálgast óðum land, og stendur til að draga það inn að bænum Molde.

Laust fyrir miðnætti í gær tókst áhöfn skipsins að koma þrem af vélum skipsins í gang, og hefur skipið nálgast land síðan á hægum hraða, þriggja til fimm sjómílna hraða, en er nú stutt frá landi.

Eftir fremsta megni hefur verið reynt að hífa farþega skipsins upp í þyrlur, og hefur eins og áður segir tekist að bjarga um 400 manns. Átta þyrlur voru að störfum við björgunaraðgerðir í gærkvöld þar til að tvær þeirra þurftu frá að bregða til að koma skipverjum á flutningaskipinu Hagland Captain sem jafnframt varð vélarvana í aftakaveðri. Þurftu skipverjar á flutningaskipi að stökkva í sjóinn til að hægt væri að bjarga þeim, enda aðstæður erfiðara og aðkoma að skipinu slæm.

1.400 manns eru um borð í Viking Sky og því þorri farþeganna enn um borð. Flytja hefur þurft nokkra farþega af skipinu til aðhlynningar á sjúkrahúsi vegna beinbrota eða skurða. Á myndbandi sem deilt var á Twitter má sjá skipið leika í öldunum í morgun, en húsgögn og aðrir lausamunir hafa löngu dottið um koll.

RÚV greinir frá því að Viking Sky er væntanlegt til landsins tvisvar sinnum á komandi sumri, í byrjun júní annars vegar og um miðjan ágúst hins vegar.