Fyrir nokkrum vikum kom, það sem eftir er af flutningaskipinu Vikurtindi, upp úr sandinum, þar sem það strandaði á Háfsfjöru, fyrir 21 ári síðan.

Flutningaskipið strandaði þann 5. mars árið 1997 skammt austan Þjórsárósa. Vélarbilun kom upp í skipinu snemma morguns sem endaði með því að skipið strandaði á Háfsfjöru, skammt austan við Þjórsá. 

Í rannsóknarskýrslu Umhverfisstofnunar frá því ári 2003 kemur fram að um sé að ræða eitt stærsta strand skips sem hefur orðið við strendur Íslands. 

Í áhöfn voru átján manns, auk hleðslustjóra frá Eimskip. Skipstjóri Vikartinds hafnaði aðstoð frá öðrum skipum, þar til klukkustund áður en það rak í fjöru. 

Varðskipið Ægir reyndi að aðstoða skipverja á Vikurtind og misstu þeir í björgunaraðgerðum einn af sínum mönnum, þegar reynt var að koma dráttartaug yfir frá Ægi til Vikurtinds. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar var send frá Reykjavík klukkan átta að kvöldi til og var komin að skipinu, á sama tíma og það strandaði um klukkan 20.30. Það tók áhöfn þyrlunnar um klukkustund að bjarga áhöfninni úr skipinu, við erfiðar aðstæður. 

Mikil mengunarhætta stafaði af skipinu, þar sem bæði var að finna olíu og önnur hættuleg efni í skipinu. Að sama skapi dreifðist öll sú vara sem var um borð í skipinu um ströndina. Flestum þeirra gáma sem voru í skipinu skolaði útbyrðis. Skipið var lestað 250 gámum þegar það strandaði. 

Í skýrslunni segir þó að á endanum hafi mengun orðið lítil. Tókst að dæla mestum hluta olíunnar úr skipinu. Skipsflakið var rifið á slysstað. Það tók 14 mánuði að hreinsa slysstað. 

Vikartindur var þýskt að uppruna, en Eimskip hafði leigt það út um leið og það var tilbúið, sem var aðeins ári áður en skipið strandaði. Skipið var sérhannað til gámaflutninga og var 9.200 tonn að stærð. Þegar skipið strandaði var það lestað 250 gámum sem innihéldu samtals um 2.700 tonn af vörum, að verðmæti um 500-700 milljónir, á þeim tíma. Talið er að verðmæti skips og farms hafi verið um 1,7 milljarður króna. 

Hægt er að lesa rannsóknarskýrslu Umhverfisstofnunar, hér.