Gríðar­legt sand­fok var í Vík í Mýr­dal eftir ó­veðrið sem gekk yfir landið í gær.

„Það var ó­venju ó­hentug átt í gær og mikil öldu­hæð. Þá verður sand­fok upp úr fjörunni. Þetta gerist mjög sjaldan en í morgun leit þetta út eins og þegar Kötlu­þættirnir voru teknir upp og að ösku­gos hafi orðið á staðnum,“ segir Þor­björg Gísla­dóttir, sveitar­stjóri í Mýr­dals­hreppi.

Hún segir að sjór hafi gengið langt upp á land en að það hafi ekki farið inn til fólks. Það megi þó gera ráð fyrir um­tals­verður hrein­gerningum á bæði bílum og húsum vegna sand­foksins.

„Við fórum í miklar að­gerðir á sjó­varnar­garði sem sannaði gildi sitt í þessu veðri. En austar, þar sem ekki eru varnir, þar gekk sjór á land,“ segir Þor­björg.

Einhverjir hófu hreinsun strax í morgun.
Mynd/Sigurður Hjálmarsson

Þunnt lag

Sandurinn lítur á myndum út fyrir að vera meiri en hann er, en þunnt lag liggur á snjónum sem var fyrir.

„Þetta er mjög þunnt lag og maður þurfti að bora í snjóinn til að sjá hvort það væri ekki örugg­lega snjór undir,“ segir Þor­björg og að náttúru­öflin hafi minnt á sig í ó­veðrinu.

Hún segir að enn sé bylur og að það verði að meta stöðuna þegar veður hefur gengið niður.

Umfangið er mikið eins og sést á þessari mynd.
Mynd/Sigurður Hjálmarsson

Svipað öskufalli í Eyjafjallajökulsgosinu

Heima­menn sem hafa búið á svæðinu lengi muna ekki eftir svo miklu sand­foki í um fimm­tán ár. Jónas Er­lends­son, bóndi, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að þetta sé alls ekki eins­dæmi. Hann segir að síðast þegar fauk svona af sandi hafi verið tölu­verðar skemmdir á gluggum hjá fólki.

„Þetta er mjög svipað og var í Eyja­fjalla­jökulsgosinu, svona ösku­fall,“ segir Jónas.

Hér að neðan má sjá myndir sem ljós­myndarinn Sigurður Hjálmars­son tók í morgun á og í kringum Vík.

Það er ljóst að það þarf að þrífa bæði bíla og hús á Vík eftir sandfokið.
Mynd/Sigurður Hjálmarsson
Sandurinn fauk langt inn í bæinn.
Mynd/Sigurður Hjálmarsson
Sandurinn liggur á snjónum sem hafði fyrir verið.
Mynd/Sigurður Hjálmarsson
Sjórinn fór langt upp á land í óveðrinu og fór nærri yfir Þjóðveg 1.
Mynd/Sigurður Hjálmarsson