Innlent

Sveinbjörg Birna er óvelkomin á Útvarp Sögu

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Borgarinnar okkar, furðar sig á því að hún er ekki lengur velkomin á Útvarp Sögu eftir að hafa verið tíður gestur þar allt kjörtímabilið. Hún segir sig og flokk sinn sniðgengin á stöðinni og hún geti ekki einu sinni keypt sig inn í þætti eins og öðrum stendur til boða.

Það er af sem áður var þegar Sveinbjörg Birna var tíður aufúsugestur á Útvarpi Sögu. Fréttablaðið/Samsett

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, stofnandi og oddviti Borgin okkar, kannar nú möguleika á að opna útvarpsstöð. Hún segir hugmyndina viðbragð við þöggun sem hún er beitt á Útvarpi Sögu.

„Ég byrjaði að velta þessu fyrir mér eftir að mér var bent á að það hefði verið skoðanakönnun í gangi á Útvarpi Sögu í gær,“ segir Sveinbjörg Birna í samtali við Fréttablaðið.

„Eins og allir vita þá hef ég nú verið tíður gestur á Útvarpi Sögu, bara alveg síðan ég byrjaði í pólitík, en nú hefur þögnin verið algerlega ærandi. Samt fæ ég 11 prósent samkvæmt þessari skoðanakönnun á hlustendavef Útvarps Sögu.“

Sveinbjörg Birna telur skjóta skökku við að framboð hennar virðist vera að eina sem ekki er gefinn kostur á að kynna sig á útvarpsstöðinni. „Ég veit að það er hægt að kaupa þætti á Útvarpi Sögu.

Ég komst að því í kosningunum 2014 þegar ég fékk símatal frá framkvæmdastjóra flokksins sem sagði að þeir væru búnir að kaupa þætti og ég gæti farið í þá,“ segir Sveinbjörg Birna og vísar til þess þegar hún leiddi lista Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík fyrir fjórum árum.

„Þannig að fyrir þessar kosningar hafði ég náttúrlega samband og óskaði eftir að kaupa þátt og þau hafa bara ekki viljað selja mér þátt.“

Þrátt fyrir að hafa ekki ávarpað hlustendur Útvarps Sögu lengi nýtur Sveinbjörg nokkurs fylgis meðal hlustenda. Skjáskot/utvarpsaga.is

RÚV og Bylgjan standa sig betur

Edith Alvarsdóttir skipar 2. sætið á lista Borgarinnar okkar en hún hefur um langt árabil starfað á Útvarpi Sögu, selt auglýsingar og komið að dagskrárgerð. Hún hætti störfum í kjölfar þess að hún tók sæti á lista Sveinbjargar Birnu og Sveinbjörg útilokar ekki að það hafi haft einhverja kergju í för með sér.

„Það kann vel að vera en RÚV og fjölmiðlaveita 365 standa sig betur í að láta allar raddir heyrast. Ég er búin að fara í Harmageddon, Bítið og Brennsluna og ég er búin að vera á Rás1 og Rás2 en ég fæ ekki einu sinni að kaupa þátt á Útvarpi Sögu.“

Sveinbjörg Birna varpaði þessari spurningu fram á Facebook í dag: „Er ekki einhver fróður vinur minn hérna sem kann alla pappírsvinnuna sem þarf að fara í til að stofna útvarpsstöð?“

Hún segir að þótt hún hafi kastað þessu fram í gamansömum tón þá er full alvara að baki. „Ég var að fara yfir þetta í morgun. Það eru nú bara ellefu dagar til kosninga og þar af sjö virkir dagar eftir.

Sameinað útvarp litlu framboðanna?

Þar sem ég er nú vön að hrista hlutina fram úr erminni er ég að velta fyrir mér hvort ég geti ekki bara húrrað upp einni útvarpsstöð. Þetta er kannski smá grín en þessu fylgir samt alvara og ég er að skoða þetta og athuga hvort ég nái að opna fyrir kosningar með svona fáa virka daga til stefnu.“

Sveinbjörg Birna segist einnig hafa íhugað að kanna áhuga hinna „smærri framboðanna“ á því að taka þátt í þessu. „Til dæmis vini mína á Karlalistanum, Gunnar Waage og svona, til þess að hafa eitthvert fútt í þessu. Heldurðu að það væri ekki gaman ég og Gunnar Waage værum saman í settinu?“

Undarlegt að vera skilin útundan

„Ég hef eiginlega verið fastagestur á Útvarpi Sögu en það sést vel á vef stöðvarinnar að í kosningabaráttunni hafa öll framboð fengið pláss á dagskránni. Nema mitt.

Þetta er áhugavert en á vefnum er hægt að hlusta á eldri þætti og það er alltaf mynd með af þeim sem voru í hverjum þætti. Og það er bara búið að veggfóðra síðuna með Flokki fólksins, Miðflokknum og Höfuðborgarlistanum og Sjálfstæðismenn hafa líka eitthvað verið þarna. Ég man ekki einu sinni hvenær ég fór síðast í viðtal á Útvarpi Sögu.“


Pólitískir gestir í Síðdegisútvarpi Útvarps Sögu frá mánaðarmótum:

Síðdegisútvarpið 15.maí Pétur Gunnlaugsson ræðir við Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóra í Kópavogi og Geir Þorsteinsson oddvita Miðflokksins í Kópavogi.

Síðdegisútvarpið 14.maí Arnþrúður Karlsdóttir ræðir við Björgu Kristínu Sigþórsdóttur oddvita Höfuðborgarlistans og Jón Gunnar Benjamínsson sem skipar 10.sæti listans.

Síðdegisútvarpið 14.maí Pétur Gunnlaugsson ræðir við Gunnlaug Ingvarsson oddvita og formann Frelsisflokksins, Svanhvíti Tómasdóttur og Ágúst Örn Gíslason frambjóðendur lista flokksins.

Síðdegisútvarpið 14.maí Pétur Gunnlaugsson ræðir við Ingvar Mar Jónsson oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík.

Síðdegisútvarpið 11.maí Pétur Gunnlaugsson ræðir við Kristínu Soffíu Jónsdóttur frambjóðanda Samfylkingarinnar í Reykjavík, Björgu Kristínu Sigþórsdóttur oddvita Höfuðborgarlistans og Mörtu Guðjónsdóttur frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Síðdegisútvarpið 11.maí Arnþúður Karlsdóttir ræðir við Ingu Sæland formann Flokks fólksins.

Síðdegisútvarpið 9.maí Arnþrúður Karlsdóttir ræðir við Kolbrúnu Baldursdóttur sálfræðing og oddvita Flokks fólksins í Reykjavík.

Síðdegisútvarpið 9.maí Pétur Gunnlaugsson ræðir við Baldur Borgþórsson og Svein Hjört Guðfinnsson frambjóðendur Miðflokksins í Reykjavík.

Síðdegisútvarpið 7.maí Pétur Gunnlaugsson ræðir við Björgu Kristínu Sigþórsdóttur oddvita Höfuðborgarlistans.

Síðdegisútvarpið 7.maí Arnþrúður Karlsdóttir ræðir við Ástu Þórdísi Skjalddal Guðjónsdóttur fyrrverandi formann Sjálfsbjargar og Dr. Hauk Arnþórsson stjórnsýslufræðing og frambjóðendur á lista Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavík.

Síðdegisútvarpið 2.maí Pétur Gunnlaugsson ræðir við Birgi Þórarinsson þingmann Miðflokksins.

Síðdegisútvarpið  2.maí Arnþrúður Karlsdóttir ræðir við Ásgerði Jónu Flosadóttur formann Fjölskylduhjálpar Íslands og frambjóðanda í 3.sæti hjá Flokki fólksins í Reykjavík.

Síðdegisútvarpið 30.apríl Pétur Gunnlaugsson ræðir við Eyþór Arnalds oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Síðdegisútvarpið 30.apríl Arnþrúður Karlsdóttir ræðir við Halldóru Mogensen þingmann Pírata.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Sveinbjörg sökuð um siðblindu

Innlent

Emmsjé Gauti og Sveinbjörg Birna „battla“ um borgina

Innlent

Víð­tækt sam­ráð mála­miðlun við snjall­síma­banni

Auglýsing

Nýjast

Ekki langt í að fjöldi starfa verði úreltur

Lét greipar sópa í frí­höfninni: Með átta ilm­vatns­glös í töskunni

Vara við hríð og slæmri færð

Jensína orðin elst allra

66 látin eftir sprengingu í olíu­leiðslu

Þúsundir fylgdust með jarðarför borgarstjórans

Auglýsing