„Ég náði því markmiði mínu að fella þennan meirihluta og ég er stolt af því,“ segir Vigdís Hauksdóttir, fráfarandi borgarfulltrúi Miðflokksins í borginni.
Hún segir skrýtið að Stefán Pálsson „sagnfræðingur og sögumaður“ eins og hún kallar hann í samtali við Fréttablaðið, „sparki í mig“ nú þegar Vigdís sé hætt í pólitík.
„Ég má augljóslega hvorki vera né fara.“
Stefán Pálsson sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að ágreiningur innan flokka hins fallna meirihluta í borginni hefði betur verið leystur fyrir opnum tjöldum en í bakherbergjum. Ein ástæða þessa hefði sennilega verið djöfulgangurinn í Vigdísi Hauks.
Vigdís kann því ekki illa að henni sé þakkað að hafa fellt meirihlutann undir forystu Dags B. Eggertssonar.
„Mér tókst að fella meirihlutann með minni gagnrýni, uppljóstrunum og ábendingum um fjárhagsstöðu borgarinnar og fleira. Ég vil meina að málflutningur minn hafi skilað því að meirihlutinn féll en að kenna mér um að ósamræmi flokkanna hafi ekki verið gert opinbert, það er náttúrlega hlægilegt,“ segir Vigdís.
Hún segir greinilegt að Stefán sé í miklu sárum yfir slöku gengi VG í kosningunum.