Vig­dís Hauks­dóttir, borgar­full­trúi Mið­flokksins, og Karl Garðars­son, fyrr­verandi þing­maður Fram­sóknar­flokksins, voru gestir Lindu Blön­dal í Frétta­vakt kvöldsins.

Karl og Vig­dís voru saman á þingi fyrir hönd Fram­sóknar­flokksins á árunum 2013 til 2016. Fyrrum sam­flokks­mennirnir. Að­spurð hvað þeim þykir um stöðuna í Norð­vestur­kjör­dæmi segir Vigdís telja lausnina á málinu skýra í sínum huga.

„Þetta er að verða ansi skraut­legt, svo ekki sé meira sagt. Þetta er orðið að saka­máli,“ segir Vig­dís um stöðuna sem upp er komin. „Úr því að eitt kjör­dæmi er komið á þennan stað, þá verður að skipa starfs­stjórn, starfsríkis­stjórn og kjósa upp á nýtt í öllum kjör­dæmum. Þær kosningar geta farið fram sam­hliða sveitar­stjórnar­kosningunum í vor, því að ef það verður ekki gert þá er alltaf hægt að efast um lög­mæti laga­setningar í kjör­dæminu,“ segir Vig­dís.

Starfstjórn vinni til næstu kosninga

Henni þykir ekki of seint að kjósa ekki fyrr en í vor því starfs­stjórnin geti starfað þangað til.

Þá bendir hún á hina umdeildu kosningu dómara við Landsrétt á sínum tíma: „Þeir voru taldir vera vitlaust kosnir [...] og í kjölfarið fóru af stað málaferli sem gengu út á það að efast um dómana sem að þeir kváðu upp.“ Slíkt geti átt við nýkjörið Alþingi í heild sinni.

Karl tekur ekki undir lausn Vig­dísar: „Þetta er mjög brött leið og þetta er ekki sú leið sem ég held að verði farin. Ég held að niður­staða þingsins verði þú, sem er auð­veldust fyrir flesta aðila, að taka seinni talninguna og segja að hún gildi. Það sé ekkert sem bendi til þess að hún sé röng,“ segir Karl.

Þá telur hann að margir flokkar á þingi setji sig upp á móti því að kjósa aftur

Eitt kjördæmi er allt landið

Vig­dís segir að efast verði um um­boð alls þingsins ef seinni talningunni verði haldið til streitu. „Það er ekki hægt að taka eitt kjör­dæmi út. Einn fyrir alla, allir fyrir einn.“

Karl segir að fyrst og fremst þurfi að fást niður­staða í þetta mál og seinni talningin sé sú niður­staða sem flestir geti sætt sig við. Það verður að komast niður­staða í þetta mál og þetta er eina niður­staðan sem ég held að stór hluti geti sætt sig við. „Ef það ættu á annað borð að vera kosningar, þá ættu að vera endur­kosningar í þessu kjör­dæmi,“ segir Karl.

Vig­dís vill fá ÖSE, eða Öryggis- og sam­vinnu­stofnun Evrópu til að fylgjast með næstu kosningum: „Það var nú svindlað í síðustu borgar­stjórnar­kosningum þannig að ég er gall­hörð þegar kemur að kosningum.“

Nauð­syn­legt að opna landa­mærin

Vig­dís og Karl voru einnig spurð út í tak­markanirnar innan­lands og á landa­mærunum. Þau eru sam­mála um að tíma­bært sé að af­létta tak­mörkunum: „Ég er búin að fagna frelsinu mjög lengi því að ég hef verið al­farið á móti þessari grímu­skyldu, sem dæmi. Mark­miðum sem sett voru í upp­hafi er náð með þessa víð­tæku bólu­setningu. Það verður bara að hleypa þessu lausu, það er bara svo­leiðis,“ segir Vig­dís.

„Við erum komin svona langt í bólu­setningum og svona langt í heil­brigði þjóðarinnar og það eru enn­þá höft á okkur. Mér finnst ekki litið nógu mikið til þess hvað er búið að á­vinnast,“ segir hún enn fremur.

Karl segir að það eigi ekki að ein­blína á dag­legar smit­tölur, heldur frekar hvort að Land­spítalinn þoli á­lagið ef veikum fjölgar: „Við erum bara með sjö ein­stak­linga á sjúkra­húsi og engan á gjör­gæslu. Það segir mér að þetta er alveg að ganga eins og það er, en ef þetta fer að aukast veru­lega, þá getur náttúru­lega sú staða komið upp að við þurfum að endur­skoða hvert við erum að fara,“ segir Karl.

Þau sam­mælast um að opna þurfi landa­mærin: „Höftin á landa­mærunum skipta veru­legu máli. Ferða­frömuðir hafa verið að segja síðustu daga að þetta komi í veg fyrir að fólk komi hingað til lands,“ segir Karl og heldur á­fram: „Auð­vitað munum við þurfa á næstunni að opna þetta eins og ná­granna­þjóðir okkar hafa gert og ég held að það sé al­gjör­lega nauð­syn­legt.“