Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, birti í dag gögn bráðabirgðaverkferlis vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð. Svokallað ein­eltis- og á­reitni­teymi ráð­húss Reykja­víkur hefur verið virkjað til að rannsaka kvartanirnar. Vigdís sagði í færslu með myndbirtingunni að búið væri að njósna um hana og rannsaka í tætlur.

Þá sakar hún borgarritara, Stefán Eiríksson, sem er fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, um að starfa með meirihlutanum í málinu. „Hér er hluti af geggjuninni sem á sér stað í ráðhúsinu,“ segir Vigdís í færslu sinni á Facebook.

„Það er búið að njósna/rannsaka mig í tætlur. Praktískt að hafa fyrrverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins með sér í liði. Hann hefur þegar sagt að hann vilji ekki vinna fyrir mig sem borgarritari - en vissulega vinnur hann vel fyrir Dag og co ...!!!“

Hér má sjá skjáskot af færslu Vigdísar sem hún birti á Facebook. Í færslunni má einnig finna umræddar myndir.

Meðal gagnanna sem Vigdís birtir eru skjöl sem merkt eru „trúnaðarmál“. Þá birtir hún myndir af eineltiskvörtun sem lögmaður Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, sendi borgarritara í mars og fleiri beiðnir sem lögmaður Helgu sendi.

Siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga birti fyrr á árinu álit eftir erindi forsætisnefndar borgarstjórnar varðandi það þegar kjörnir fulltrúar gera starfsmenn að umtalsefni í opinberri umræðu.

Í álitinu sagði að almennt hlyti það að teljast óheppilegt þegar kjörnir fulltrúar gera störf starfsmanna sveitarfélags að umtalsefni í opinberri umræðu, ekki síst ef ummælin feli í sér neikvæðan dóm yfir viðkomandi starfsfólki eða störfum þess. Slík framkoma geti falið í sér brot á siðareglum kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar.