Borgarfulltrúi Miðflokksins, Vigdís Hauksdóttir, sást í dag í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins. Hún segist í samtali við Fréttablaðið þó ekki vera á leið í Sjálfstæðisflokkinn. „Við Marta [Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins] vorum að koma af fundi í umhverfisnefnd og ég skutlaði henni upp í Valhöll á meðan hún fór inn að kjósa,“ segir Vigdís, en um er að ræða miðstjórnarkjör Varðar - fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. 

Hún segist hafa farið inn á meðan en þegar Marta hafi lokið við að kjósa hafi hún skutlað henni áfram upp í Landakot. „Hún var bíllaus,“ segir borgarfulltrúinn.

Vigdís hefur verið gagnrýnin á framgöngu samflokksmanna sinna á Klaustri, í nóvember, þar sem þeir óðu á súðum. Hún studdi yfirlýsingu bæjarfulltrúa Miðflokksins í Suðurkjördæmi um Klausturmálið, þar sem sett var fram krafa um „ásættanlega niðurstöðu á fundi varðandi áframhaldandi þingmennsku þeirra þingmanna sem þarna áttu hlut að máli.“ 

Vigdís skrifaði: „Ég er sammála þessari yfirlýsingu bæjarfulltrúa Miðflokksins í Suðurkjördæmi og hef við þetta að bæta að þetta er óverjandi orðræða á köflum sem ég gagnrýni harðlega. Þingmenn og þingflokkur verða að bregðast við – en ég ætla ekki að segja þeim fyrir verkum – frekar en að þeir geti sagt mér fyrir verkum,“ sagði hún.

Spurð hvort hún sé ánægð í Miðflokknum svarar Vigdís: „Ég er kjörinn fulltrúi Miðflokksins og gegni þar trúnaðarstörfum.“ Spurð öðru sinni svarar hún: „Ég hef alltaf verið ánægð í Miðflokknum. Þó þetta sé komið upp þarna þá held ég áfram að sinna mínum störfum sem ég var kjörin til að gegna,“ segir hún.

Vigdís segist ekki bera ábyrgð á Klausturmálinu. Í gangi sé „mikill snjóstormur“ og hún vilji gefa samflokksmönnum sínum svigrúm til að stíga fram og leysa úr þessu máli. Hún muni halda ró sinni á meðan. „Ég held mínu striki.“

Spurð hvort Vigdís eigi vini í Sjálfstæðisflokknum svarar Vigdís: „Ég á vini í öllum flokkum. En ég vinn einstaklega vel með Sjálfstæðismönnum.“