Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, slakar hvergi á klónni þegar framúrkeyrsla við byggingar á vegum Reykjavíkur er annars vegar. Hún hefur farið mikinn í braggamálinu svokallaða en vekur nú athygli á annarri byggingu sem ljóst er að muni fara milljónatugi fram úr kostnaðaráætlun.

Vigdís tók mynd af vitanum út um glugga á Höfða í dag og birti á Facebook með þeim skilaboðum að hún viti varla hvort hún eigi að hlæja eða gráta. „Hér má sjá framúrkeyrslu vitann við Höfða,“ skrifar hún og bætir við að „nú þegar er búið að greiða rúmlega 150 milljónir út á verkefnið.“

Samkvæmt upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir að vitinn, sem enn er heldur rislágur, myndi kosta borgina 100 milljónir. „Hann átti að vera tilbúinn í apríl 2018 og þetta er árangurinn,“ segir Vigdís í samtali við Fréttablaðið. „Þetta er réttnefndur hálfviti. Ég hef sjaldan séð aðra eins vit-leysu í orðsins fyllstu merkingu.“

Þótt bragginn í Nauthólsvík hafi átt hug Vigdísar allan um nokkurt skeið hefur hún einnig gefið vitanum gaum. „Ég er búin að hafa auga á þessu hrúgaldi lengi en fékk bestu yfirsýn sem ég hef nokkru sinni fengið út um gluggann í Höfða í dag, hvar frændi minn Einar Ben stóð áður og horfði út á sæinn. Þetta er í raun annar braggaskandall þótt hann sé ekki á sama skala,“ segir Vigdís og er auðheyrilega nokkuð niðri fyrir.