Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, og víkingarnir tveir, Baldur Borgþórsson sem skipar 2. sæti á lista flokksins, og Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, þriðji maður á lista, hafa vakið talsverða athygli með stuttum kosningamyndböndum sínum.

Sjá einnig: Kampakátir víkingar Miðflokksins taka strætó

Í myndbandi sem Miðflokkuirnn í Reykjavík birti í dag stekkur Vigdís úr flugvél í fallhlíf og svífur til jarðar í Vatnsmýrinni. Fyrir stökkið lýsir Vigdís því yfir að því fylgi áheit um að fjórða manneskja á lista Miðflokksins komist í borgarstjórn.

Þegar hún er lent heil á höldnu hjá víkingunum sínum spyr hún hvort þetta eigi eftir að verða raunin. Að flugvöllurinn fari þannig að fólk þurfi að kasta sér í fallhlíf til þess að lenda í Reykjavík.

Sjá einnig: Vigdís Hauksdóttir í höndum heljarmenna

Í myndböndunum hefur Vigdís farið fyrir þeim Baldri og Sveini, í fullum skrúða, og tekið fyrir áherslumál Miðflokksins. 

Vigdís og víkingarnir hafa meðal annars boðað Sundabraut, frítt í strætó, ókeypis skólamáltíðir og brotthvarf Landsspítalans frá Hringbrautinni.

Sveinn Hjörtur segist búast við því að flugvallarmyndbandið verði síðasta myndband víkingatríósins fyrir kosningar enda fáir dagar eftir.

„Við erum með flugvöllinn sem kosningamál þótt aðrir flokkar vilji ekki ræða hann,“ segir Vigdís í samtali við Fréttablaðið þegar hún er spurð hvort nokkur sé að spá í flugvöllinn að þessu sinni.

„Við tökum á óþægilegu málunum og látum ekkert þagga þau og Reykjavíkurflugvöllur er eitt af lykilmálunum hjá okkur ásamt því að færa Landsspítalann að Keldum.“ 

Vigdís segir jafnframt að hún láti ekki bjóða sér að öllum málum sé drepið á dreif með „tali um þessa borgarlínu sem aldrei verður að veruleika.“

Samkvæmt skoðanakönnunum virðist Vigdís nokkuð örugg um að ná sæti í borgarstjórn en hún ætlar sér að taka víkingana báða með sér og gott betur. „Ég stefni enn á að ná fjórum til sex borgarfulltrúum,“ segir Vigdís.

„Þetta var markmiðið í byrjun og ég slæ ekkert af því,” segir Vigdís og lætur ekki trufla sig að tæp vika er til kosninga. „Spyrjum bara að leikslokum.“